Fá að snúa aftur heim eftir flóðbylgjuviðvörun

Þúsundir Nýsjálendinga hafa fengið að snúa aftur til síns heima eftir að hafa þurft að flýja heimili sín vegna flóðbylgjuviðvörunar seint í gærkvöldi, að morgni föstudags að staðartíma.

Viðvörunin var gefin út eftir að jarðskjálfti af stærð 8,0 reið yfir úti fyrir ströndum Norðureyjar, fjölmennustu eyju Nýja-Sjálands.

Skjálftinn var með þeim stærstu sem mælst hafa á svæðinu. Mælikvarði jarðskjálfta er lógaritmískur með grunntölu 10, sem þýðir að sveifluvídd skjálftans tífaldast fyrir hverja einingu á skalanum. Því var skjálftinn um 200 sinnum öflugri heldur en stærsti skjálftinn sem mælst hefur á Reykjanesi frá því skjálftahrina hófst í síðustu viku, en sá var 5,7.

Upptök skjálftans voru þó á 19 kílómetra dýpi og um 1.000 kílómetra frá ströndum eyjarinnar og hafa engar fregnir borist af stórkostlegu tjóni á mannvirkjum, hvað þá manntjóni. Þess í stað sneru áhyggjur almannavarna fyrst og fremst að flóðbylgjum sem búið var að reikna út að myndu ná ströndum um klukkan 22 á fimmtudag að íslenskum tíma.

Sem þær gerðu. Um þremur klukkustundum síðar tilkynntu almannavarnir að stærstu öldur hefðu riðið yfir og fólki væri óhætt að snúa aftur heim. Fólki er þó enn ráðlagt að halda sig frá ströndum og fara ekki út á sjó þar sem hafstraumar geta verið óútreiknanlegir.

Maður horfir á hafið í Orewa, norður af höfuðborginni Auckland. …
Maður horfir á hafið í Orewa, norður af höfuðborginni Auckland. Íbúum var gert að flýja inn í land vegna yfirvofandi flóðbylgjuhættu. AFP
mbl.is