Þriðji hver Bandaríkjamaður misst ástvin

Ríflega 520 þúsund hafa nú látist í Bandaríkjunum af völdum …
Ríflega 520 þúsund hafa nú látist í Bandaríkjunum af völdum kórónuveirunnar. AFP

Einn af hverjum þremur Bandaríkjamönnum hefur misst einhvern nákominn sér af völdum kórónuveirunnar. Nú þegar rúmlega 520 þúsund Bandaríkjamenn hafa látist vegna veirunnar hefur New York Times tekið saman sögu nokkurra þeirra sem fallið hafa frá. 

Meðal þeirra sem rætt er við í samantekt NYT er fólk sem misst hefur foreldra, börn og maka. Helmingur allra dauðsfalla í Bandaríkjunum af völdum kórónuveirunnar hefur orðið frá því í nóvember í fyrra og þrátt fyrir að bólusetning við veirunni sé hafin og milljónir séu orðnar ónæmar, deyja enn um 2.500 manns á dag í landinu.

Hér á Íslandi hafa nú 29 látist sem gerir 81 dauðsfall á hverja milljón íbúa. Í Bandaríkjunum hafa 1.594 látist á hverja milljón íbúa. 

Stúlka í blóma lífsins

Clarissa Torres fæddist árið 1997 og bjó í Bronx-hverfi New York-borgar. Hún lést því af völdum kórónuveirunnar á 23. aldursári. Móðir hennar, Mercedes Reyes, segir að það hafi verið hrein martröð að missa dóttur sína og að lífið sé enn martröð.

Hún segir að Clarissa hafi verið glöð ung stúlka sem elskaði að syngja og dansa og naut lífsins. Hún þjáðist af krabbameini í heila og lést á sjúkrahúsi í maí 2020 eftir að hafa smitast af kórónuveirunni.

Mercedes segir að þegar dóttir hennar hafi látist hafi hún sagt við hana hversu leitt henni hafi þótt að geta ekki verið hjá henni.

„Fyrirgefðu mér að ég gat ekki verið hjá þér. Ég elska þig og við munum hittast aftur.“

Skömmu áður en hún dó eignaðist Clarissa son, Sai, sem Mercedes annast nú. Hún segir að það sé eins og að hafa Clarissu enn hjá sér að fá að ala Sai upp. 

Nýgift og hamingjusöm

Ashlie Janeil Halvorson bjó í bænum Minot í Norður-Dakóta. Hún var nýgift manni sínum, Eric. Systir Erics, Emily Louise Esquibel, segir frá því hvernig hún kynntist Ashlie þegar þær unnu saman á hjúkrunarheimili í Minot. Hún leiddi Ashlie og Eric saman og bróðir hennar kvæntist því bestu vinkonu hennar.

Hún segir að líf Eric hafi fallið saman þegar Ashlie lést í nóvember í fyrra. Sjálf hugsi hún oft til Ashlie og brotni hreinlega saman af sorg. Hún vilji svo oft geta hringt í Ashlie þegar hún saknar hennar og man svo að það er ekki lengur hægt.

„Maður verður greinilega að njóta tímans sem maður hefur með sínum nánustu vegna þess að maður veit aldrei hvenær þeirra nýtur ekki lengur við.“

Emily segir lýsandi fyrir samband þeirra Ashlie að hún hafi verið jarðsett í peysu af henni. Þær hafi gjarnan skipst á flíkum meðan hún lifði.

„Ég hata að hafa keypt þetta hús“

Linda Ann Carter bjó í Baltimore og lést í júní í fyrra. Hún hafði nýlokið við háskólapróf þegar hún lést. Sonur hennar, T.J., bjó þá með henni og hann lýsir því hvernig hún bað hann oft um að lækka í tónlistinni vegna þess að hún væri að fara í próf morguninn eftir. 

„Mamma elskaði mig skilyrðislaust. Það var ekkert sem hún hefði ekki gert fyrir mig og það var ekkert sem ég hefði ekki gert fyrir hana.“

Útskrift Lindu var haldin heima vegna samkomutakmarkana í skreyttu húsi, henni til heiðurs. T.J. segir að móðir hans hafi ætlað sér að klára þetta nám þótt það yrði það síðasta sem hún gerði, sem varð síðan raunin að hans sögn.

T.J. býr nú í húsi móður sinnar, sem hann keypti handa henni, þreyttur á að hún flytti á tveggja ára fresti. Hann segist fyrst ekki hafa viljað hreyfa við neinu sem móðir hans skildi eftir, en sefur nú í herbergi hennar. Hann segir tilvist hennar fylla húsið og hefur hengt upp myndir af henni upp um alla veggi. Hann segir þó að það sé erfitt að búa í húsinu sem mamma hans hafi búið í til dauðadags og finna sífellt fyrir sorginni og tóminu sem hún skilur eftir sig.

Erfiður dauðdagi

Karlets Dennison frá Nýju-Mexíkó var af ætt Navajo-frumbyggja. Hann lést í janúar síðastliðinn og kona hans, Deborah, segist vart geta ímyndað sér líf sitt án hans. Hún var 19 ára þegar þau giftu sig fyrir 39 árum og því man hún vart annað, að eigin sögn, en að vera með Karlets. 

Karlets og Deborah kynntust á ródeói og var nautgriparækt þeirra aðaláhugamál allar götur síðan. Deborah býr enn á búgarðinum sem þau keyptu sér, á landi Navajo-ættbálksins, þar sem jarðneskar leifar hans hvíla. 

Deborah segir að dýrin á bænum, kýrnar, nautin og hestarnir, hafi fundið það á sér að Karlets væri fallinn frá. Sjálfri finnst henni hafa verið svindlað á sér, Karlets hafi ekkert átt að deyja svona snemma. Hún segir einnig að svindlað hafi verið á dætrum hennar sem misstu föður sinn of snemma og á barnabarni hennar sem átti gott samband við afa sinn.

Deborah segir að henni þyki hryllilegt að hugsa til þess hvað fór um huga eiginmanns hennar áður en hann lést. Hann lést á sjúkrahúsi, í einangrun og talaði lélega ensku. Hún segir að það hafi örugglega verið erfitt fyrir hann að vera einn í slíku umhverfi, umkringdur dauðanum allan daginn og hafi engan haft til að tala við.

„Þetta var bara svo óþarft,“ segir Deborah um dauða Karlets. „Svo óþarft.“

mbl.is

Bloggað um fréttina