Skaut 10 til bana í matvöruverslun

Frá Boulder í gær.
Frá Boulder í gær. AFP

Vopnaður maður gekk inn í matvöruverslun í Boulder í Colorado klukkan 14.30 í gær, klukkan 20.30 að íslenskum tíma, og hóf skothríð. Tíu manns létust í árásinni sem vitni streymdu beint og sýndu á YouTube.

Um 20 mínútum eftir að árásin hófst sendi lögreglan í Boulder skilaboð á Twitter um að skotárás væri í gangi í King Soopers við Table Mesa-götu. Lögregla bað fólk um að forðast svæðið og tveimur tímum síðar biðlaði lögreglan til fólks á Twitter að birta ekki frá árásinni á samfélagsmiðlum. 

AFP

Meðal þeirra sem létust í árásinni var lögreglumaður. Einn er í haldi lögreglu en sá er særður að sögn Kerrys Yamaguchi yfirlögregluþjóns. Hann vildi ekki staðfesta fjölda látinna við blaðamenn á fundi í gær, aðeins að það væru margir látnir. BBC segir að tíu séu látnir og New York Times segir hið sama. 

Áður hafði verið sýnt í beinu streymi frá því er lögreglan fór með hvítan karl, skyrtulausan og blóðugan, út úr versluninni. Að sögn Yamaguchi er maðurinn sá eini sem er alvarlega særður eftir skotárásina í versluninni án þess að staðfesta að viðkomandi sé morðinginn. 

Lögreglumaðurinn Eric Talley var drepinn á vettvangi.
Lögreglumaðurinn Eric Talley var drepinn á vettvangi. AFP

Fólk sem var í versluninni þegar árásin hófst lýsir skelfingunni sem greip um sig þegar maðurinn hóf að skjóta. „Ég hélt að ég myndi deyja,“ segir Alex Arellano, 35 ára, sem var að vinna í kjötdeild King Soopers þegar hann heyrði fjölda skothvella. Síðan sá hann fólk hlaupa út um útgöngudyr skammt frá deildinni sem hann starfar í.

AFP

Lögreglumaðurinn sem lést hét Eric Talley, 51 árs, en hann var fyrstur lögreglumanna á vettvang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert