Fyrrverandi ráðgjafi ber Johnson þungum sökum

Boris Johnson og Dominic Cummings meðan allt lék í lyndi.
Boris Johnson og Dominic Cummings meðan allt lék í lyndi. AFP

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands á nú í vök að verjast heima fyrir eftir að Dominic Cummings, sem áður var hans helsti ráðgjafi, sakaði forsætisráðherrann um að misbeita valdi sínu og skorta heilindi og færni í starfi.

Í grein sem Cummings skrifaði á vefsíðu sína á föstudag segir hann að Johnson hafi reynt að afla styrkja, með hugsanlega ólöglegum leiðum, til að gera upp forsætisráðherrabústaðinn í Downingstræti sem er í eigu ríkisins.

Þá segir hann að Johnson hafi viðrað þær hugmyndir að stöðva innri rannsókn á leka úr forsætisráðuneytinu vegna þess að sakborningurinn var náinn vinur unnustu hans, Carrie Symonds.

Skrifstofa forsætisráðherrans hefur hafnað ásökununum og sagt að allar styrkveitingar, sem beri að tilkynna, séu tilkynntar. Þá hafi forsætisráðherrann aldrei haft afskipti af rannsókn á lekum úr ráðuneytinu. Liz Truss, viðskiptaráðherra Breta, sagði í viðtali við Sky News-sjónvarpsstöðina að ekkert væri hæft í ásökununum sem væru lítið annað en orðrómur. 

Ásakanirnar koma í kjölfar fréttaflutnings um meinta óeðlilega hagsmunagæslu Johnsons og annarra ráðherra í ríkisstjórn hans, sem hafa verið til umfjöllunar í breskum miðlum síðustu daga.

Dominic Cummings, sem hefur verið lýst sem einum helsta hvatamanninum að útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, varð helsti ráðgjafi Boris Johnsons frá því hann tók við embætti sumarið 2019. Hann lét af störfum í lok síðasta árs en talað var um að deilur um málefni ráðuneytisins væru ástæða starfslokanna.

Tals­vert hafði gustað um Cumm­ings, en síðasta sumar varð ferðalag hans til Norðaust­ur-Eng­lands, eft­ir að út­göngu­banni hafði verið komið á, að stóru frétta­máli í Bretlandi og þótti það draga mjög úr stuðningi fólks við sóttvarnareglur stjórnvalda þegar Boris Johnson varði gjörðir aðstoðarmannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert