Hafa ekki séð dóttur sína í 17 mánuði

Drisya og Dalin ásamt dóttur sinni Johonnuh.
Drisya og Dalin ásamt dóttur sinni Johonnuh. Drisya og Dalin

Foreldrar hinnar fimm ára gömlu Johönnuh hafa ekki séð dóttur sína síðan í nóvember 2019. Johannah var í heimsókn hjá ömmu sinni og afa í Kerala-fylki á Indlandi þegar heimsfaraldur kórónuveirunnar gerði það að verkum að flugsamgöngur frá Indlandi til heimalands hennar Ástralíu féllu niður. 

Johannah er ein af að minnsta kosti 173 áströlskum börnum sem föst eru fylgdarlaus á Indlandi. Þegar faraldurinn skall á reyndu foreldrar Johonnuh, Drisya og Dalin, að koma henni um borð í flug á vegum áströlsku ríkisstjórnarinnar til Sydney. Það gekk þó ekki eftir þar sem börn undir 14 ára aldri fengu ekki að snúa aftur til Ástralíu fylgdarlaus. 

Flugfélagið Qantas, sem heldur uppi flugsamgöngum á milli Indlands og Ástralíu, bannar einnig flutning fylgdarlausra barna á milli landa. Drisya og Dalin sáu sér aðrar bjargir ekki færar en að leita að einkaflugvél til að flytja dóttur sína heim. Til stóð að sú vél lenti í Sydney 6. maí, en ekkert varð af ferðinni í kjölfar þess að áströlsk yfirvöld bönnuðu komur flugvéla frá Indlandi. 

Reynt alla möguleika

„Þetta var okkar síðasta von, við höfum reynt alla möguleika. Við brotnuðum algjörlega niður. Stundum sérðu vonargeisla, en svo gerist eitthvað svona,“ segir Dalin í samtali við BBC. 

Drisya og Dalin komu fyrir þingnefnd ástralska þingsins í vikunni og sögðu sögu sína. Í máli þeirra kom meðal annars fram að sjö fylgdarlaus börn til viðbótar áttu að koma til Ástralíu með sama einkaflugi og dóttir þeirra.  

„Ég bið ykkur, fyrir hönd þeirra alla, að íhuga möguleikann á því að flytja inn fylgdarlaus börn, hvort sem er í flugferðum á vegum stjórnvalda eða i einkaflugi,“ sagði Dalin fyrir þingnefndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert