Biden samþykkir sölu á vopnum til Ísrael

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur samþykkt sölu á vopnum til Ísrael að andvirði 735 milljóna Bandaríkjadala, sem jafngildir rúmlega 93 milljörðum íslenskra króna. Þetta kemur fram í frétt Washington Post.

Greint er frá því að Bandaríkjaþingi hafi verið tilkynnt formlega um söluna þann fimmta maí síðastliðinn, eða nærri viku áður en yfirstandandi átök hófust á milli ísraelska hersins og vígasveita Hamas.

Vilja þrýsta á vopnahlé

Sumir þingmenn innan Demókrataflokksins hafa gagnrýnt söluna og gefið í skyn að hana mætti nýta til að þrýsta á Ísrael að semja um vopnahlé.

„Á síðastliðinni viku hafa loftárásir Ísraelsher tekið líf margra óbreyttra borgara og eyðilagt byggingu sem hýsti Associated Press, bandarískt fyrirtæki sem flytur fréttir frá Gaza. Að leyfa fyrirhugaða sölu á vopnum án þess að þrýsta á Ísrael að samþykkja vopnahlé mun einungis ýta undir áframhaldandi blóðbað“, er haft eftir fulltrúa demókrata í utanríkismálanefnd fulltrúadeildar bandaríska þingsins.

Þingið hefur hingað til staðið á bak við þá stefnu Bandaríkjastjórnar að Ísrael hafi rétt til að verja sig gegn árásum Hamas, en líkt og fram kemur í frétt Washington Post örlar á efasemdum um stuðning Bandaríkjanna við Ísrael meðal nýrrar kynslóðar þingmanna í fulltrúadeild þingsins.  

Yfir 200 hafa látið lífið í átök­um milli Ísra­els og Palestínu sem staðið hafa yfir í viku, þar af 197 Palestínumenn og tíu í Ísrael. 

mbl.is