Leita konu sem olli furðulegu slysi

Rétt áður en einn keppandinn hjólaði á skiltið sem konan …
Rétt áður en einn keppandinn hjólaði á skiltið sem konan vísaði að sjónvarpsmyndavélunum. Ljósmynd/Twitter

Furðulegt slys sem varð á fyrsta keppnisdegi Frakklandshjólreiðanna, Tour de France, í gær er rannsakað sem sakamál.

Franska lögreglan leitar konu sem hélt á stóru skilti sem náði inn á keppnisbrautina og felldi þýska hjólareiðamanninn Tony Martin með þeim afleiðingum að fjöldi annarra keppenda féll einnig á götuna. 

Konan verður ákærð fyrir að brjóta öryggisreglur af ásettu ráði og fyrir að valda meiðslum sem geta leitt til atvinnumissis í allt að þrjá mánuði. 

Myndskeiði af slysinu hefur verið dreift á samfélagsmiðlum þar sem konan sést greinilega, í gulum jakka, halda á skilti sem á stendur „amma og afi“ á þýsku. Hún snýr baki í keppendurna sem nálgast hana á fleygiferð með fyrrnefndum afleiðingum. Einn keppandi hefur þurft að draga sig alfarið úr keppni og átta þurftu að leita læknisaðstoðar. Konan flúði af vettvangi eftir slysið og lögreglan biðlar til vitna að gefa sig fram hafi þeir upplýsingar um konuna. 

Beðnir um að virða öryggi keppenda

Pierre-Yves Thouault, framkvæmdastjóri Tour de France, segir skipuleggjendur keppninnar ætla að leita réttar síns. „Við ætlum að lögsækja konuna fyrir slæma hegðun. Þetta gerum við svo að sáralítill minnihluti sem gerir hluti á borð við þennan skemmi ekki fyrir öllum hinum,“ segir hann í samtali við AFP-fréttastofuna. 

Skipuleggjendur Tour de France hafa birt færslu á Twitter þar sem áhorfendur eru beðnir um að virða öryggi keppenda. „Ekki fórna öllu fyrir mynd eða að komast í sjónvarpið!“ segir meðal annars í færslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert