Skjálfti að stærð 5,8 á Krít

Slökkviliðsmenn bera hinn látna frá kirkjunni.
Slökkviliðsmenn bera hinn látna frá kirkjunni. AFP

Öflugur jarðskjálfti að stærð 5,8 skók grísku eyjuna Krít í morgun. Að minnsta kosti einn er látinn og 11 særðir. 

Skjálftinn, sem varð á tíu kílómetra dýpi, varð klukkan sex í morgun að íslenskum tíma, 23 kílómetrum frá þorpinu Arkalohori. Þar lést maður þegar kirkja hrundi til grunna. Maðurinn var að störfum í kirkjunni þegar hún hrundi. Slökkviliðsmenn leita nú að eftirlifendum í rústum hennar.

Fyrst var skjálftinn talinn stærri, eða um 6,5 að stærð en grísk yfirvöld hafa nú gefið út að hann hafi verið 5,8 að stærð.

Slökkviliðsmenn leita að eftirlifendum í kirkjunni sem hrundi.
Slökkviliðsmenn leita að eftirlifendum í kirkjunni sem hrundi. AFP

„Við bjuggumst ekki við þessum jarðskjálfta. Það hafa orðið stórir eftirskjálftar að stærð 4,5,“ segir Efthymis Lekkas, framkvæmdastjóri grísku jarðskjálftastofnunarinnar, í samtali við fréttastofu ANA. 

Grikkir eru ekki óvanir skjálftum en síðast varð banvænn skjálfti í Grikklandi í bænum Elassona. Þá lést einn og 10 særðust. Sá skjálfti olli verulegu eignatjóni. 

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert