Fleiri Íslendingar taka þátt í leitinni

AFP

Leit hefur haldið áfram í morgun að Íslendingi sem féll af sæþotu í Svíþjóð á laugardaginn en lögreglan hefur hætt opinberri leit að honum. 

Fjöl­skylda og vin­ir manns­ins hafa flogið frá Íslandi til Svíþjóðar til að aðstoða við leit­ina og eru fleiri Íslendingar væntanlegir til Svíþjóðar bæði á morgun og á föstudag, að því er segir í tilkynningu frá aðstandendum.

Í morgun fóru tveir og tveir saman að leita að manninum á þremur sæþotum sem aðstandendur hans útveguðu. Sú leit bar ekki árangur. Einnig hafa þeir útvegað björgunarbát sem tekur 12 manneskjur og verður hann notaður bæði í dag og á morgun.

Aðstandendurnir eru með einn kafara á sínum vegum sem kafar meðfram ströndum og úti í sjónum.

Fjarstýrðir kafbátadrónar notaðir

Íslenska fyrirtækið DroneFly ætlar jafnframt að senda tvo háþróaða fjarstýrða kafbótadróna með linsu og ljósum sem komast á 100 metra dýpi. Einnig verður sendur einn leitardróni.

Sjálfboðaliðar ætla jafnframt að halda áfram leit á landi í dag, rétt eins og þeir gerðu í gær.

Búið er að hrinda af stað söfnunarreikningi, bæði fyrir uppihaldi og búnaði á staðnum. Afgangurinn fer til fjölskyldu mannsins sem leitað er. Reikningsnúmerið er 0549-14-401028. Kennitala: 120989-2519.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert