Ástralar binda endi á 18 mánaða farbann

Óperuhúsið í Sydney er án efa þekktasta kennileiti Ástralíu. Þangað …
Óperuhúsið í Sydney er án efa þekktasta kennileiti Ástralíu. Þangað geta ferðamenn bráðum komið, miðað við nýjustu stefnubreytingu þarlendra stjórnvalda. AFP

Ástralar munu opna landamæri sín fyrir komufarþegum í nóvember samhliða því að Áströlum verður leyft að ferðast utan.

Þannig mun um 18 mánaða farbanni til og frá Ástralíu ljúka, en strangar takmarkanir á landamærum landsins tóku gildi skömmu eftir að kórónuveiran dreifði sér um heiminn í mars á síðasta ári. Frá því þá hefur aðeins mátt fljúga til og frá Ástralíu ef brýna nauðsyn ber til.

Í frétt BBC segir að bólusettum ferðamönnum verði veitt frelsi, enda gildir tilslökun á landamærum Ástralíu aðeins um þá sem þegið hafa bóluefni gegn veirunni. Nánar tiltekið munu íbúar þeirra fylkja innan Ástralíu, þar sem bólusetningarhlutfall er 80% eða hærra, geta ferðast utan.

Bólusetningarhlutfall hvergi 80% eða hærra

Í stærstu borgum landsins, Sydney, Melbourne og höfuðborginni, Canberra, er útgöngubann nú í gildi. Veiran náði sér á flug á þessum stöðum með tilheyrandi aðsókn íbúa svæðanna í bólusetningu.

Ekkert fylki í Ástralíu hefur 80% bólusetningarhlutfall eða meira, en Nýja-Suður-Wales er talið verða það fyrsta til að ná þeim áfanga á næstu vikum. Fylkin Queensland og Vestur-Ástralía, sem haldið hafa sínum landsfjórðungum kirfilega lokuðum, verða þó mögulega ekki opnuð fyrir ferðamönnum fyrr en bólusetningarhlutfall á landsvísu verður enn hærra en 80%.

„Það er tími til kominn að Ástralar fái líf sitt í eðlilegt horf,“ segir Scott Morrison, forsætisráðherra landsins.

Hann segir einnig að skyldubundin 14 daga sóttkví á þar til gerðu hóteli muni falla úr gildi. Í stað þess kemur mun viðráðanlegri skyldubundin 7 daga heimasóttkví, enda kostaði 14 daga dvöl á sóttkvíarhóteli um 3 þúsund ástralska dollara (290 þúsund krónur).

Flugfélög, sem fljúga til og frá Ástralíu, eru því í startholunum en þau hafa sagt að eftirspurn verði líklega mikil. Þó hafa þau slegið þann varnagla að líklega verði eitthvað um tafir á meðan flugsamgöngur komast á sitt fyrra skrið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert