Kurz víkur úr embætti kanslara

Kurz gengur á brott eftir að hafa lokið við ávarp …
Kurz gengur á brott eftir að hafa lokið við ávarp sitt í kvöld. AFP

Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, hefur tilkynnt að hann muni víkja úr embættinu. Þrýst hefur verið á hann um það eftir að hann var sakaður um spillingu.

Í sjónvörpuðu ávarpi til landsmanna nú í kvöld sagðist Kurz vilja skapa rými til að tryggja landinu ríkisstjórn sem væri stöðug.

„Við þurfum stöðugleika,“ sagði hann og bætti við að óábyrgt væri að leyfa Austurríki að falla í glundroða á komandi mánuðum á sama tíma og barist sé við faraldur kórónuveirunnar.

Schallenberg taki við sem kanslari

Sagðist hann myndu tilnefna utanríkisráðherrann Alexander Schallenberg sem nýjan kanslara. Sjálfur kvaðst hann ætla að halda áfram að gegna formennsku í Þjóðarflokknum og sömuleiðis þingmennsku.

Werner Kogler, formaður Græningja – sem skipa ríkisstjórn ásamt Þjóðarflokki Kurz, sagðist í gær hafa beðið Þjóðarflokkinn að tilnefna annan kanslara þar sem Kurz væri ekki lengur hæfur til starfans.

Kurz hefur neitað því að hafa gert nokkuð rangt. Ítrekaði hann í ávarpi sínu að ásakanir í hans garð hefðu ekkert við að styðjast.

„Ég mun geta útskýrt þetta. Ég er viss um það,“ sagði hann þjóðinni rólegur í fasi.

Skoðanakannanir þjónað pólitískum hagsmunum

Greint var frá því í vikunni að kanslarinn sætti rann­sókn vegna gruns um að hafa nýtt al­manna­fé til að tryggja sér hag­fellda um­fjöll­un í götu­blaði.

Grun­ur leik­ur á um að á ár­un­um 2016 og til 2018 hafi fjár­mun­ir úr fjár­málaráðuneyti Aust­ur­rík­is verið notaðir til þess að greiða fyr­ir hag­felld­ar skoðanakann­an­ir. Þess­ar skoðanakann­an­ir hefðu ein­göngu þjónað póli­tísk­um hags­mun­um flokks­ins og birst í götu­blaðinu Öster­reich.

Tíma­setn­ing þess­ara meintu fjár­veit­inga skar­ast á við það tíma­bil þegar Kurz komst til valda í Flokki fólks­ins og leiddi hann í rík­is­stjórn­ar­sam­starf með Frels­is­flokkn­um.

Varð kanslari 31 árs

Kurz skaust hratt upp á stjörnuhimin austurrískra stjórnmála fyrir áratug, eða árið 2011, en þá tók hann aðeins 24 ára við embætti ráðherra aðlögunarmála.

Tveimur árum síðar varð hann utanríkisráðherra Austurríkis og gegndi því embætti allt fram í desember árið 2017, er hann varð kanslari eftir kosningasigur þar sem hann hafði einna helst lagt áherslu á innflytjendamál, þá 31 árs. Myndaði hann þá ríkisstjórn með Frelsisflokknum.

Hann hefur af sumum verið sakaður um að stjórna Þjóðarflokknum með harðri hendi og mörgum þótti hann fullþögull á meðan rasísk ummæli flokksmanna Frelsisflokksins komust ítrekað í hámæli á meðan samstarf flokkanna varði.

Hneyksli árið 2019

Því stjórnarsamstarfi lauk árið 2019, eftir að upp komst að formaður Frelsisflokksins og varakanslarinn Heinz-Christian Strache hefði rætt við konu sem þóttist vera frænka rússnesks auðkýfings.

Sagðist hún vera að leita að fjárfestingartækifærum í Austurríki og bauðst til að kaupa helmingshlut í dagblaðinu Kronen Zeitung til að breyta ritstjórnarstefnu þess og sjá til þess að blaðið styddi Frelsisflokkinn. Strache tók vel í boðið og sagðist meðal annars myndu sjá til þess að fyrirtæki hennar fengi samninga um opinberar framkvæmdir.

Eftir að upp komst um þetta sagði Strache af sér embætti eins og áður sagði, en enn fremur var Herbert Hickl innanríkisráðherra rekinn sem svo leiddi til þess að aðrir ráðherrar Frelsisflokksins sögðu af sér embættum sínum. Endi var svo bundinn á valdatíma stjórnarinnar þegar samþykkt var vantraustsyfirlýsing í þinginu á hendur Kurz í lok maí sama ár.

Í september 2019 voru svo haldnar kosningar þar sem Kurz tryggði sér embætti kanslara að nýju. Myndaði hann þá ríkisstjórn með Græningjum, þó ekki fyrr en eftir þriggja mánaða þref að kosningum loknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert