Lést í kjölfar slagsmála

Maður á fimmtugsaldri lést í Grimstad í Agder í Suður-Noregi …
Maður á fimmtugsaldri lést í Grimstad í Agder í Suður-Noregi í kjölfar átaka sem brutust út í teiti í útjaðri bæjarins. Þrír eru í haldi lögreglu grunaðir um að hafa orðið honum að bana. Ljósmynd/Wikipedia.org/Colliekar

Maður á fimmtugsaldri lést á sjúkrahúsi aðfaranótt gærdagsins í kjölfar átaka síðdegis á laugardag í Grimstad í Agder-fylki í Suður-Noregi. Var hann gestkomandi í teiti í útjaðri bæjarins, þar sem til átakanna kom og tilkynnti staðarlögregla um málið á Twitter-svæði sínu klukkan 18:40 að norskum tíma.

Vanja Bruvoll, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar í Agder, staðfesti andlátið við norska ríkisútvarpið NRK í gær og greindi enn fremur frá því að þrír hefðu verið handteknir og lægju nú undir grun um stórfellda líkamsárás með banvænum afleiðingum og er sá elsti hinna handteknu á sjötugsaldri en hinir á fertugs- og sextugsaldri. Höfðu tveir þeirra sætt yfirheyrslu er NRK fjallaði um málið í gær auk þess sem teknar höfðu verið skýrslur af þremur vitnum.

„Við getum ekkert tjáð okkur um efni yfirheyrslnanna, til þess er rannsóknin allt of skammt á veg komin,“ sagði Terje Gundersen, stöðvarstjóri lögreglunnar í Grimstad, við NRK í gær.

Fátt í stöðunni annað en að læsa

Daniel Romundsen býr í nágrenni við vettvang átakanna. Hann sat á heimili sínu og horfði á sjónvarpið þegar bláir ljósglampar lögreglubifreiða birtust honum gegnum stofugluggann. „Þegar ég leit út um gluggann sá ég þrjár lögreglubifreiðar aka fram hjá. Þá voru tvær sjúkrabifreiðar þegar komnar fyrir utan húsið og ég sá þrjár manneskjur bornar út á börum,“ sagðist Romundsen frá og játaði aðspurður að sér þætti verulega óþægilegt að svona lagað gerðist í hverfinu. „Ég veit ekki hvað maður getur gert annað en að læsa útidyrunum og vona það besta,“ sagði hann við NRK í gær.

NRK

VG

Dagbladet

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert