Eiginkona El Chapo dæmd í þriggja ára fangelsi

Emma Coronel Aispuro, eiginkona El Chapo, ásamt lögmanni sínum, Jeffrey …
Emma Coronel Aispuro, eiginkona El Chapo, ásamt lögmanni sínum, Jeffrey Lichtman. AFP

Bandarískur alríkisdómari dæmdi í dag eiginkonu mexíkóska eiturlyfjabarónsins Joaquin „El Chapo“ Guzman í þriggja ára fangelsi fyrir eiturlyfjasmygl og peningaþvætti.

Refsingin er styttri en saksóknarar fóru fram á, eða fjögur ár, þar sem Rudolph Contreras dómari viðurkenndi að Emma Coronel Aispuro hafði aðeins verið unglingur þegar hún giftist El Chapo ásamt því að hún hafði fúslega játað sekt eftir handtökuna í febrúar á þessu ári.

Coronel, 32 ára fyrrverandi fegurðardrottning sem á tvíburadætur með El Chapo sem í dag eru níu ára gamlar, bað dómstólinn afsökunar.

Lýsti yfir eftirsjá

„Ég lýsi sannri eftirsjá minni yfir allan skaða sem ég kann að hafa valdið,“ sagði hún á spænsku áður en dómurinn var kveðinn upp.

„Ég þjáist vegna sársaukans sem ég olli fjölskyldu minni,“ bætti hún við.

Dómarinn sagði að hún myndi einnig borga 1,5 milljónir bandaríkjadala, eða tæplega 200 milljónir íslenskra króna, í endurgreiðslusamningi sem samið var um og að þeir níu mánuðir sem hún hefur setið í fangelsi frá því hún var handtekin væru teknir inn í dóminn.

Raunverulegt hlutverk hennar hafi verið í lágmarki

Bæði saksóknarar og verjendur hennar lýstu því að Coronel væri ekki þátttakandi í kjarnastarfsemi El Chapo, sem flutti hundruð tonna af kókaíni, heróini, metamfetamíni og öðrum fíkniefnum til Bandaríkjanna að sögn bandaríska dómsmálaráðuneytisins.

„Raunverulegt hlutverk sakbornings var í lágmarki,“ sagði saksóknari Anthony Nardozzi.

„Ákærði var ekki leiðtogi, skipuleggjandi, yfirmaður eða annars konar stjórnandi. Hún var frekar tannhjól í mjög stóru hjóli glæpasamtaka,“ sagði hann fyrir dómi.

El Chapo, sem er í dag 64 ára, var dæmdur í lífstíðarfangelsi eftir að hann var fundinn sekur í febrúar 2019 um að hafa stýrt fíkniefnasmygli, Sinaloa-kartelinu.

Hann áfrýjaði lífstíðardómi sínum fyrir bandarískum dómstólum en hann hefur hef­ur verið lát­inn dúsa í ein­angr­un í einu ramm­girt­asta fang­elsi Banda­ríkj­anna í rík­inu Col­orado.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert