Eldsvoðinn alþjóðlegur harmleikur

Ríflega tvö hundrað slökkviliðsmenn komu á vettvang.
Ríflega tvö hundrað slökkviliðsmenn komu á vettvang. AFP

Borgaryfirvöld í New York hafa leiðrétt tölu yfir fjölda látinna eftir eldsvoða sem kom upp í íbúðarbygg­ingu í Bronx-hverfi New York-borg­ar á sunnudag. Samkvæmt nýjum upplýsingum létu 17 manns lífið, þar af átta börn og níu fullorðnir.

Áður hafði borgarstjórinn Eric Adams greint frá því að tíu fullorðnir og níu börn hefðu látist en það reyndist ekki rétt. 

Reykurinn fljótur að dreifast

Ríflega tvö hundruð slökkviliðsmenn mættu á vettvang til að berjast við eldinn en samkvæmt upplýsingum varðstjóra slökkviliðsins í New York, Daniels Ni­gros, var það reykurinn sem olli mesta skaðanum.

63 slösuðust í eldsvoðanum, sem er talinn einn sá versti í sögu borgarinnar. Er ekki útilokað að tala látinna hækki enn frekar en þónokkrir eru enn í lífshættu.

Eldur kviknaði um ellefuleytið á þriðju hæð íbúðarhússins sem telur alls 19 hæðir og eru upptökin talin vera lítill rafmagnshitari sem kviknaði í. Reykurinn dreifðist hratt um bygginguna þar sem dyrnar á íbúðinni sem rafmagnshitarinn var í höfðu verið skildar eftir opnar.

Alþjóðlegur harmleikur

Sjónarvottar hafa lýst óhugnanlegum aðstæðum á vettvangi þar sem íbúar sáust öskra eftir hjálp í gluggum byggingarinnar og stóð húsið í ljósum logum.

„Það voru mörg börn að grátbiðja um aðstoð. „Hjálp, hjálp, hjálp“ öskruðu þau,“ sagði Dilenny Rodriguez, ein þeirra sem tókst að flýja bygginguna með börnin sín.

Adams segir atburðinn alþjóðlegan harmleik en Bronx-hverfið er þekkt fyrir menningarlegan fjölbreytileika. Var stór hluti íbúanna í byggingunni múslímar sem höfðu flutt til New York frá Gambíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert