Sjá glitta í endalok faraldursins í Evrópu

Höfuðstöðvar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Genf.
Höfuðstöðvar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Genf. AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, segir endalok faraldurs kórónuveiru kunna að vera í augsýn í Evrópu þar sem faraldurinn hafi þróast yfir í annað ástand með tilkomu ómíkron-afbrigðisins. 

Að mati stofnunarinnar gætu um sex af hverju tíu Evrópubúum hafa smitast í marsmánuði, sem myndi tákna endalok faraldursins. 

Nokkurra mánaða frí fram undan

„Það er mögulegt að faraldurinn á svæðinu [Evrópu] sé að nálgast einhvers konar endastöð,“ hefur fréttaveitan AFP-eftir Hans Kluge, yfirmanni Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. 

Kluge segir líklegt að þegar núverandi bylgju sé lokið muni taka við rólegir mánuðir þar sem útbreitt ónæmi haldi veirunni í skefjum. Hins vegar kunni Covid-19 að snúa aftur í lok árs en þá í annarri mynd og ekki endilega sem heimsfaraldur. 

Bylgja afléttinga í Evrópu

Síðustu vikur hafa nokkur ríki innan Evrópu tilkynnt fyrirætlanir um afléttingu takmarkana vegna faraldursins í ljósi vægra veikinda þeirra sem smitast af ómíkron-afbrigðinu. Þar á meðal Færeyjar, Írland og Bretland. 

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítalans, sögðust í aðsendri grein á visir.is ætla að taka afléttingar takmarkana til skoðunar „með hliðsjón af skynsemi og öryggi“.

mbl.is

Bloggað um fréttina