Með lista yfir Úkraínumenn „sem verða drepnir“

Stuðningsmenn Úkraínumanna í New York þar sem möglegri innrás Rússa …
Stuðningsmenn Úkraínumanna í New York þar sem möglegri innrás Rússa í Úkraínu var mótmælt. AFP

Bandaríkjamenn hafa sagt Sameinuðu þjóðunum að þeir hafi upplýsingar um að Rússar eigi lista yfir Úkraínumenn „sem verða drepnir eða sendir í fangabúðir“ ef til innrásar kemur, að því er segir í bréfi sem var sent til yfirmanns mannréttindamála hjá SÞ og AFP-fréttastofan hefur undir höndum.

Í bréfinu, sem barst á sama tíma og bandarísk stjórnvöld hafa varað við yfirvofandi innrás Rússa í Úkraínu, kemur fram að Bandaríkin séu „mjög áhyggjufull“ og vara þau við mögulegum „hörmungum í mannréttindamálum“.

Bandaríkin hafa „áreiðanlegar upplýsingar sem gefa til kynna að rússneskar hersveitir séu að búa til lista yfir ákveðna Úkraínumenn sem verða drepnir eða sendir í fangabúðir í kjölfar hernáms,“ sagði í bréfinu.

„Við höfum einnig áreiðanlegar upplýsingar um að rússneskar hersveitir munu líklega beita banvænum aðferðum til að stöðva friðsamleg mótmæli,“ sagði einnig í bréfinu sem var stílað á Michelle Bachelet, yfirmann mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum.

Í bréfinu, sem var undirritað af Bathsheba Nell Crocker, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum í Genf, er einnig varað við því að innrás Rússa í Úkraínu gæti meðal annars haft í för með sér mannrán og pyntingar, auk þess sem pólitískir leiðtogar, trúarleiðtogar og minnihlutahópar gætu orðið fyrir barðinu á Rússum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert