Innganga Svía og Finna í NATO auki ekki öryggi

Stjórnvöld í Kreml segja að ákvörðun Finna og Svía um að ganga í Atlantshafsbandalagið (NATO) muni ekki auka öryggi í Evrópu. Um sé að ræða ákvörðun sem veki áhyggjur og að fara þurfi vandlega yfir hvaða áhrif stækkunin muni hafa. AFP-fréttastofan greinir frá.

„Við erum ekki sannfærð um að ákvörðun Finnlands og Svíþjóðar um ganga í hernaðarbandalag NATO muni verða til þess að styrkja eða bæti öryggi í heimsálfunni,“ sagði Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Kreml, í samtali við blaðamenn.

„Þetta er alvarlegt mál og vekur hjá okkur áhyggjur. Við munum fara vandlega hvaða áhrif þessi viðbót Finna og Svía við NATO mun hafa á okkur hvað praktík og öryggi varðar, sem verður að tryggja skilyrðislaust,“ sagði hann jafnframt.

Hann benti á að ólíkt Úkraínu, þá ættu Svíar og Finnar ekki í neinum landfræðilegum deilum við Rússa.

Fyrr í dag sagði Sergeu Ryabkov, staðgengill utanríkisráðherra Rússlands, að um væri að ræða „alvarleg mistök sem hefðu miklar afleiðingar“.

Ríkisstjórn Finnlands tilkynnti það formlega í gær ákveðið hefði verið að hefja umsóknarferli um aðild að NATO, en um er að ræða mikinn viðsnúning frá fyrri stefnu Finna í varnarmálum, sem hafa viðhaft hernaðarlegt hlutleysi í 75 ár.

Þá hefur forsætisráðherra Svía tilkynnt að tillaga um aðild að NATO verði lögð fyrir sænska þingið í dag.

Peskov segir að fara þurfi vandlega yfir hvaða áhrif stækkunin …
Peskov segir að fara þurfi vandlega yfir hvaða áhrif stækkunin muni hafa. AFP
mbl.is