Ráðherra deilir Netflix-aðgangi sínum

Nadine Dorries, menningarmálaráðherra Bretlands.
Nadine Dorries, menningarmálaráðherra Bretlands. AFP

Nadine Dorries, menningarmálaráðherra Bretlands, deilir Netflix-aðgangi sínum með fjórum öðrum heimilishöldum, meðal annars móður sinni. Þetta kom fram í ræðu Dorries í breska þinginu, þar sem hún sagði streymisveituna „ótrúlega örlátt kerfi“. 

Dorries hélt því fram að hrun hlutabréfaverðs í Netflix, sem er nú þriðjungi verðminna fyrirtæki en það var í upphafi árs, sé merki um velgengi streymisveitunnar. 

„Ég held að fyrir þá sem eru að reyna að mála þá mynd að Netflix sé í erfiðleikum séu svolitlar ýkjur. En þau munu þurfa að endurskoða rekstarformið sitt,“ sagði Dorries. 

„Mér hefur alltaf fundist þetta ótrúlega örlátt kerfi, ef þú ert með aðgang, að þá getur þú leyft öðrum að nota hann. Ég meina, mamma mín hefur aðgang að mínum aðgangi, börnin mín líka. Ég er með Netflix en það eru fjórir aðrir sem geta notað Netflix aðganginn minn á mismunandi svæðum í landinu,“ sagði Dorries. Hún var síðan upplýst um að það færi gegn skilmálum fyrirtækisins að deila aðgangsorði Netflix með öðrum. 

Frétt Guardian

mbl.is