Tvær milljónir Breta glíma við langvarandi Covid

Flestir sem telja sig glíma við long Covid þjást af …
Flestir sem telja sig glíma við long Covid þjást af þreytu og andþyngslum. AFP/Robyn Beck

Um tvær milljónir Breta, eða þrjú prósent bresku þjóðarinnar, telja sig glíma við langvarandi eftirköst af Covid-19 smiti (e. long covid), samkvæmt tölfræðiupplýsingum sem breska hagstofan hefur tekið saman.

Stærstu hóparnir eru efnaminni konur á aldrinum 35 til 69 ára og þau sem starfa við umönnunarstörf, kennslu og heilbrigðisþjónustu. Þá virðast þau sem glíma við fötlun eða sjúkdóma sem valda skertri hreyfigetu líklegri til að þjást af eftirköstum.

Þriðjungur taldi sig hafa fengið Ómíkron

Um 1,4 milljónir einstaklinga í þessum hópi fengu annað hvort staðfestingu á smiti eða höfðu grun um smit að minnsta kosti 12 vikum áður en þau töldu sig glíma við eftirköst. Rúmlega 826 þúsund einstaklingar töldu sig hafa fengið Covid-19 að minnsta kosti ári áður en 376 þúsund töldu sig hafa smitast að minnsta kosti tveimur árum áður.

Um þriðjungur hópsins taldi sig hafa smitast af kórónuveirunni þegar Ómíkron-afbrigði veirunnar var ráðandi í landinu. Um er að ræða upplýsingar frá einstaklingunum sjálfum.

Flestir glíma við þreytu

Þreyta er það einkenni sem flestir glíma við, eða 55 prósent þeirra sem telja sig glíma við langvarandi Covid. 32 prósent finna fyrir andþyngslum og 23 prósent glíma við hósta og vöðvaverki.

Þessar tölur koma í kjölfar niðurstöðu rannsóknar sem birtist í apríl og sýndi fram á að aðeins um fjórðungur þeirra sem þurftu að leggjast inn á spítala vegna Covid-19 höfðu jafnað sig að fullu ári síðar. Samkvæmt niðurstöðum sömu rannsóknar, sem náði til rúmlega 2.300 einstaklinga, eru 33 prósent minni líkur á að konur nái sér að fullu en karlmenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert