Rússar komi í veg fyrir aftöku stríðsfanga

Í aðalsal Mannréttindadómstóls Evrópu.
Í aðalsal Mannréttindadómstóls Evrópu.

Mannréttindadómstóll Evrópu, MDE, hefur birt úrskurð í máli sem marokkóskur maður á þrítugsaldri, höfðaði gegn Rússlandi. Féll dómurinn manninum í hag. 

Þess er krafist að rússnesk yfirvöld komi í veg fyrir að maðurinn, sem er fæddur árið 2000, verði tekinn af lífi. 

Hann hafði verið dæmdur til dauða af dómstólum í héraðinu Dónetsk, sem einungis Rússar hafa viðurkennt sem fullvalda ríki, fyrir að berjast með úkraínskum hersveitum þar gegn rússneskum hersveitum.

Tveir Bretar með honum

Maðurinn sem um ræðir heitir Brahim Saadoun. Tveir breskir menn voru einnig dæmdir til dauða, þegar þeir þrír voru króaðir af og gáfust upp gagnvart rússneskum hermönnum. Þeir heita Aiden Aslin og Shaun Pinner. Bresk yfirvöld hafa lýst yfir mikilli reiði vegna þessa. 

Málið fékk flýtimeðferð fyrir Mannréttindadómstólnum á þeim grundvelli að lífi mannsins væri hætta búin. 

Mannréttindadómstóll Evrópu er hluti af Evrópuráðinu, þaðan sem Rússum hefur þegar verið bolað burt. Rússneska þingið samþykkti nýlega að það skyldi ekki lengur lúta lögsögu Mannréttindadómstólsins. 

Dómstóllinn lítur engu að síður á sem svo að hann sé fullfær um að úrskurða í málum gegn Rússlandi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert