49 látnir eftir flóttatilraun

Forseti landsins segist ætla að krefjast skýringa á atvikinu.
Forseti landsins segist ætla að krefjast skýringa á atvikinu. Ljósmynd/Google maps

Að minnsta kosti 49 fangar eru látnir og fjörutíu til viðbótar slasaðir eftir flóttatilraun úr fangelsi í Tulua í Valle del Cauca í suðvesturhluta Kólumbíu fyrr í dag. Eldur er sagður hafa kviknað við flóttatilraunina, með þessum skelfilegu afleiðingum.

Talsmaður fangelsismála í landinu segir að ekki sé um að ræða staðfestar tölur og tala látinna gæti því breyst.

Ivan Duque, forseti landsins, sagði í færslu á Twitter að hann harmaði atvikið og að krafist yrði skýringa á því hvernig þetta gat gerst. Þá vottaði hann aðstandendum hinna látnu samúð sína.

Fangaóeirðir og flóttatilraunir eru ekki óalgengar í Suður-Ameríku og leiða þær oft til manntjóns. Í nágrannríkinu Ekvador hafa tæplega 400 fangar látið lífið í fangaóeirðum síðastliðið ár.

mbl.is