Kona stungin til bana í Svíþjóð

Kona á sextugsaldri er látin eftir sunguárás í Gotlandi í …
Kona á sextugsaldri er látin eftir sunguárás í Gotlandi í Svíþjóð. AFP/Henrik Montgomery

Karlmaður á þrítugsaldri er grunaður um að hafa stungið konu til bana á Gotlandi í Svíþjóð.

Stunguárásin átti sér stað síðdegis í dag í miðbæ Visby, þar sem stjórnmálamannavikan í Almedalen almenningsgarðinum fer nú fram. Konan, sem var á sextugsaldri, var flutt á sjúkrahús og tilkynnti lögregla nokkrum klukkustundum síðar að hún hefði látist af sárum sínum.

Hinn grunaði var handtekinn skammt frá vettvangi glæpsins en samkvæmt SVT er hann sagður hafa tengsl við norræna andspyrnuhreyfingu nasista (NMR). 

Lögregla hefur ekki tjáð sig um tildrög eða ástæður árásarinnar. Þá er ekki vitað hvort tengsl hafi verið milli mannsins og konunnar.

Fredrik Persson, lögreglustjóri á Gotlandi, sagði hugsanlegt að fleiri tengist málinu. Hann gat þó ekki staðfest hvort hinn grunaði tengist hægri öfgahópum, það væri hluti af rannsókninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert