Tugmilljónir muni upplifa hita umfram 51 gráðu

Gróður vex upp úr því sem áður var botn Mead-vatns …
Gróður vex upp úr því sem áður var botn Mead-vatns í Nevada í Bandaríkjunum í sumar. AFP

Búist er við að eftir um þrjátíu ár muni fleiri en 100 milljónir manna, á ákveðnu svæði í Bandaríkjunum, upplifa 52 gráða hita að minnsta kosti í einn dag á hverju ári.

Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar á vegum First Street-stofnunarinnar, en yfirlýst markmið hennar er að gera loftslagsbreytingalíkön aðgeng almenningi, yfirvöldum og fólki í atvinnulífinu, á borð við fasteignafjárfesta og tryggingafélög.

Tekið er fram að rannsóknin notast við svokallaða hitavísitölu, þ.e. hvernig mannslíkaminn skynjar hitastigið úti við, þegar rakastig er tekið inn í reikninginn auk lofthita. Því er ekki um að ræða lofthita einan og sér.

Kolaorkuver í Baltimore í Maryland-ríki.
Kolaorkuver í Baltimore í Maryland-ríki. AFP

Texas, Louisiana og norður til Wisconsin

Lykilniðurstaða rannsóknarinnar er sú að rúmlega átta milljónir manna í Bandaríkjunum muni upplifa hita í hæsta viðvörunarflokki bandarísku veðurstofunnar, „Extreme Danger“ eða „Gríðarleg hætta“, þ.e. umfram 52 gráður, á þessu ári.

En árið 2053 muni þessi fjöldi telja 107 milljónir manna.

Horft er þá til svæðisins sem markast af Norður-Texas og Louisiana í suðri og þekur svæði allt norður til Iillinois, Indiana og Wisconsin.

Til að hanna líkanið skoðaði rannsóknarhópurinn meðal annars gögn úr gervihnöttum um hita við yfirborð jarðar og lofthita á tímabilinu 2014 til 2020, til að skilja betur tengsl þessara tveggja þátta.

Hæð yfir sjávarmáli var einnig tekin inn í jöfnuna, auk þess sem litið var á fjarlægð frá næsta vatni og fjarlægð frá ströndu.

Mesta breytingin í Miami

Spár um loftslag í framtíðinni voru síðan settar inn í líkanið, þar sem notast var við meðalsviðsmynd milliríkjanefndarinnar um loftslagsbreytingar, en í henni byrjar magn koltvísýrings í andrúmsloftinu að fara niður á við um miðja öldina.

Handan þessa umrædda svæðis er einnig búist við að svæði um allt landið muni þurfa að þola meiri hita.

Mestu breytingunum er spáð í kringum borgina Miami í Flórída, en þar fer hitavísitalan yfir 52 gráður í sjö daga á ári. Talið er að þeir dagar verði 34 talsins árið 2053.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert