Ætla að banna sölu á símum án hleðslutækja

Frá Apple kynningu.
Frá Apple kynningu. AFP

Yfirvöld í Brasilíu segjast ætla banna sölu á iPhone-símum þar sem hleðslutæki fylgja ekki með í kaupunum lengur.

Dómsmálaráðuneyti Brasilíu sendi frá sér yfirlýsingu á þriðjudag og kvaðst hafa sektað Apple um 12,275 ríala en það jafngildir um 325 milljónum íslenskra króna, að því er kemur fram í umfjöllun BBC.

Senaco, neytendasamtök í Brasilíu, sögðu ákvörðun Apple um að selja nýja iPhone-síma án meðfylgjandi hleðslutækja mismuna neytendum með því að selja „ófullnægjandi vöru“.

Apple ætlar að áfrýja banninu.

Hleðslutæki fylgja ekki lengur með

„Við erum fullviss um að viðskiptavinir okkar séu meðvitaðir um margvíslega möguleika til að hlaða og tengja tækin sín,“ sagði Apple í yfirlýsingu til Reuters.

Tilkynnt var um sekt og bann á sölu iPhone-síma án USB straumbreyta degi áður en Apple kynnti til leiks nýja iPhone 14, 14 Pro og Apple Watch Ultra vörurnar sínar.

Neytendasamtök í Sao Paulo sektuðu Apple um 324 milljónir íslenskra króna í fyrra á þeim forsendum að iPhone 12 og allar gerðir síma eftir útgáfu hans brjóti lög um neytendakaup þar sem hleðslutæki fylgja ekki með.

Segjast vilja draga úr kolefnisspori

Apple hætti að láta hleðslutæki og heyrnartól fylgja með í iPhone-kössum þegar fyrirtækið kynnti iPhone 12 til leiks fyrir tveimur árum síðan.

Fyrirtækið sagði þá að það væri til þess fallið að draga úr kolefnisspori Apple með því að minnka pakkningarnar.

„Stundum skiptir ekki öllu máli hvað það er sem við framleiðum, heldur það sem við framleiðum ekki,“ sagði Lisa Jackson, varaforseti umhverfis-, stefnu og samfélagsmála hjá Apple.

Bætti hún við að þegar væru til tveir milljarðar Apple hleðslutækja í heiminum. Senaco segir ekkert benda til þess að sala á símum án hleðslutækja hafi umhverfislegan ávinning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert