Meira ofbeldi og orðræðan róttækari

Mótmælendur halda á lofti myndum af Möhsu Amini sem lést …
Mótmælendur halda á lofti myndum af Möhsu Amini sem lést í haldi lögreglu. AFP

„Núna er eins og mótmælin séu allt öðruvísi vegna þess að nú er ekki verið að tala um umbætur á kerfinu heldur að koma á fót nýju kerfi,“ segir Magnús Þorkell Bernharðsson, sagnfræðiprófessor og sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda, um mótmælin sem geisa nú í Íran.

Þau hafa geisað í kjölfar þess að 22 ára gömul kona, Mahsa Amini, lést í haldi lögreglu eftir brot á hennar á ströngum reglum Írana um notkun höfuðslæðu.

Magnús bendir á að mótmæli sem þessi hafi komið fram með tiltölulega reglulega millibili síðastliðin 20 ár í Íran. Hann minnist sérstaklega á mótmælin 2009, hina svokölluðu grænu byltingu. Þá hafi hins vegar mótmælendur krafist umbóta á kerfinu og að fá annan mann í forsætisembættið.

„Þetta eru kannski ennþá róttækari mótmæli núna hvað varðar kröfur mótmælenda. Málstaðurinn og kröfurnar kalla á að æðstu leiðtogar landsins víki frá,“ segir Magnús og bendir á það sem er að eiga sér stað í Íran sé kannski byltingarkenndara nú en áður.

Þá segir Magnús að hafa beri í hug að þeir sem stjórni nú í Íran hafi sjálfir komið til valda í gegnum byltingu, þeir séu því mjög meðvitaðir um hvernig svona lagað getur gerst.

Magnús Þorkell Bernharðsson er einn helsti sérfræðingur Íslands í málefnum …
Magnús Þorkell Bernharðsson er einn helsti sérfræðingur Íslands í málefnum Mið-Austurlanda. mbl.is/Hari

Vanmetum valdastöðu valdhafanna

„Við höfum séð þetta svo oft áður að það hafa verið mótmæli og fólk farið út á götu og verið mjög öflug mótmæli en síðan verður ekkert úr því þannig að ég held að við vanmetum mjög valdastöðu valdhafanna og hversu langt þeir vilja ganga í að kveða niður svona mótmæli,“ segir Magnús og bætir við:

„Það er ekki bara lögreglan og herinn heldur er mjög mikið af leynilögreglum og óeinkennisklæddum lögreglumönnum sem eru virkilega að beita sér á mjög öflugan hátt til að koma í veg fyrir að fólk nái framgöngu.“

Frá mótmælunum í borginni Tehran.
Frá mótmælunum í borginni Tehran. AFP

Magnús bendir á að forseti Íran, Ebraham Raisi, hefur verið í New York undanfarna daga á fundi Sameinuðu þjóðanna. Því megi mögulega búast við að viðbrögð stjórnvalda við mótmælunum verði enn sterkari og kannski enn blóðugri en hefur verið þegar hann snýr aftur. Væntanlega hafi stjórnvöld ekki viljað vera með mjög öfluga mótstöðu meðan forsetinn er staddur í New York og fjölmiðlar heimsins að fylgjast með.

Annað umhverfi en áður

Hann bætir við að nú sé einnig annað umhverfi en til að mynda í mótmælunum í Íran 2009 og 2019. Samfélagsmiðlar geri fólki kleift að hittast og skipuleggja mótmæli en sömu tækin gera líka stjórnvöldum kleift að fylgjast með nákvæmlega hverjir voru og hvenær.

„Stjórnvöld eru núna líka viðbúin og viða hverjir þetta eru og þess háttar en þetta er eins og rauður þráður í sögu Íran og þetta gerist með reglulega millibili. Þetta er núna svolítið örðuvísi því það er meira ofbeldi og aðeins víðtækari en oft áður og orðræða róttækari en hefur verið en á sama tíma eru stjórnvöld mjög vön svona málum og eru tilbúin til þess að taka hart á þessu.“

Magnús segir meira ofbeldi vera í mótmælunum nú en áður …
Magnús segir meira ofbeldi vera í mótmælunum nú en áður og að orðræðan sé róttækari. AFP

Vandamálið líka alþjóðasamfélagsins

Að lokum bendir Magnús á að auðvitað megi kenna stjórnvöldum í Íran um stöðuna en að við verðum líka að hugsa um að alþjóðasamfélagið hefur staðið í efnahagsþvingunum gagnvart Íran sem hefur gert Írönum mjög erfitt fyrir bæði hvað varðar efnahagskerfið í Íran en auk þess hefur Írönum ekki verið kleift að fara til útlanda og til að mynda mennta sig.

„Íran er mjög lokað land og það er ekki bara stjórnvöldum í Íran að kenna heldur líka okkur í alþjóðasamfélaginu að kenna að Íranar hafa ekki þessi tækifæri og möguleika  og fólk í öðrum löndum þannig að þetta er ekki bara íranskt vandamál heldur vandamál alþjóðsamfélagins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert