Skjálfti í Svíþjóð: „Hljómaði eins og sprengja“

Frá Vänern-vatni í Vestur-Svíþjóð. Mynd úr safni.
Frá Vänern-vatni í Vestur-Svíþjóð. Mynd úr safni. Ljósmynd/Anders Husa/vastsverige.com

Margir vöknuðu í Vesturgautlandssýslu í nótt, nánar tiltekið í bæjunum Åmål og Säffle, þegar þar reið yfir nokkuð sem Svíar kalla stóran jarðskjálfta.

Skjálftinn, sem varð klukkan 04.34 að staðartíma, átti upptök sín undir Væni, stærsta stöðuvatni Svíþjóðar, sem þar nefnist Vänern.

Miklar drunur

Björn Lund, jarðskjálftafræðingur við Uppsalaháskóla, segir skjálftann hafa verið 3,0 að stærð. Það sé óvenjulegt en ekki óþekkt.

Íbúi Åmål tjáir Aftonbladet að miklar drunur hafi fylgt skjálftanum.

„Þetta hljómaði eins og sprengja. Þetta fannst í öllu húsinu. Það titraði og ég hef aldrei áður upplifað nokkuð þessu líkt,“ segir Fríða, sem vaknaði við skjálftann.

mbl.is