Þjóðverjar hyggjast leyfa kannabis

Karl Lauterbach heilbrigðisráðherra kynnir kannabisáætlun þýsku ríkisstjórnarinnar á blaðamannafundi í …
Karl Lauterbach heilbrigðisráðherra kynnir kannabisáætlun þýsku ríkisstjórnarinnar á blaðamannafundi í Berlín í dag. AFP/John MacDougall

Þýska ríkisstjórnin hefur sett sér áætlun sem miðar að því að árið 2024 verði lögráða fólki leyfilegt að reykja kannabisefni í kjölfar viðeigandi lagabreytingar. Gert er ráð fyrir að frá gildistöku þeirrar breytingar verði hverjum og einum leyfilegt að hafa í fórum sínum allt að 30 grömm af efninu til eigin neyslu og kaupa megi kannabisefni í apótekum og verslunum sem öðlast hafi sérstakt leyfi til að selja efnin.

Áætlun stjórnarinnar hefur enn ekki hlotið samþykki þingsins en auk þess samþykkis þarf Evrópuráðið að leggja blessun sína yfir breytinguna. Fram til þessa hefur aðeins Malta gefið þegnum sínum leyfi til kannabisneyslu af Evrópusambandsríkjum.

Heimaræktun miðist við þrjár plöntur

Karl Lauterbach heilbrigðisráðherra kveðst reikna með því að vel sé líklegt að áætlunin um 2024 standist. Gerir áætlun Þjóðverja enn fremur ráð fyrir að leyfilegt verði að rækta kannabisplöntur heima við en sú ræktun muni þó takmarkast við þrjár plöntur á hvern lögráða einstakling í heimili.

Sagði Lauterbach heilbrigðisráðherra, við kynningu áætlunarinnar, að afglæpavæðing efnisins kæmi til með að vernda heilsu þýskra ungmenna þar sem bannið gegn efninu hefði ekki átt „neinu láni að fagna“ síðustu ár. Neyslan hefði aukist og um leið eiturlyfjafíkn fullorðinna. „Við viljum setja markaðinum stífar reglur,“ sagði ráðherra.

Kvað hann koma til greina að setja reglur um hámarksstyrkleika kannabisefna sem seld yrðu yngra fólki en 21 árs sem þýddi að fylgjast yrði sérstaklega með THC (tetrahýdrókannabinól) innihaldi þeirra efna.

Sagði Lauterbach að næst stæði fyrir dyrum að leggja áætlunina fyrir Evrópusambandið þar sem farið yrði ofan í saumana á því hvort hún stæðist löggjöf sambandsins.

Deutsche Welle (á ensku)

Süddeutsche Zeitung (á þýsku)

BBC

Bloomberg

mbl.is