6 látnir og 38 særðir eftir sprengingu í Istanbúl

Mikill mannfjöldi var á svæðinu þegar sprengingin varð.
Mikill mannfjöldi var á svæðinu þegar sprengingin varð. Skjáskot af Twitter

Að minnsta kosti sex eru látnir og 38 særðir eftir sprengingu sem varð við Taksim-torg í Istanbúl um klukkan hálf tvö í dag að íslenskum tíma. Sprengingin náðist á myndband sem hefur verið dreift víða á samfélagsmiðlum. Viðbragðsaðilar komu fljótt á staðinn og eru enn að störfum.

Yfirvöld í Tyrklandi höfðu ekki staðfest hvað orsakaði sprenginguna, en Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti sagði að um hryðjuverk hefði verið að ræða. Fordæmdi Erdogan árásina og staðfesti að sex hefðu fallið í henni. „Hinar viðeigandi stofnanir ríkisins eru að leita að þeim sem framkvæmdu þessa viðurstyggilegu árás,“ sagði Erdogan á blaðamannafundi. 

Ali Yerlikaya, ríkisstjóri Istanbúl, sagði á Twitter að sprengingin hefði orði á Istiklal-stræti, eina af helstu verslunargötum borgarinnar. Hann sagði bæði látna og særða á vettvangi, án þess að gera frekar grein fyrir þeim upplýsingum. 


Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert