Eftirlýstur barnaníðingur náðist á Spáni

Skjámynd af fbi.gov

Spænska lögreglan sagðist í gær hafa handtekið mann á topp tíu lista FBI yfir eftirlýsta strokufanga landsins, en maðurinn er sakaður um mansal og kynferðisbrot, m.a. á ólögráða börnum. 

Maðurinn, sem er 40 ára Nýsjálendingur, var handtekinn eftir að hafa sést á hóteli í miðborg Madríd þar sem hann dvaldi undir fölsku nafni. Þrátt fyrir að maðurinn sé aðeins nefndur MJP af spænsku lögreglunni staðfesti heimildarmaður AFP fréttastofunnar að um sé að ræða Michael James Pratt, sem er á lista FBI yfir þá 10 strokufanga sem ákafast er leitað.

Strauk frá Bandaríkjunum

Upplýsingar um hann á vefsíðu FBI sýna hann nú „fangaðan“, en á vefsíðunni segir að klámvefsíður hans hefðu skilað honum yfir 17 milljónum dollara í tekjur. FBI buðu 100.000 dollara í verðlaun fyrir upplýsingar sem leiddu til handtöku hans.

Áður hafði Pratt verið handtekinn í Bandaríkjunum og dæmdur til lífstíðarfangelsis fyrir barnaklám, kynferðislega misnotkun, kynferðisbrot og hafa aflað sér tekna á ólögmætan hátt.  Honum tókst að flýja áður en til fangelsisvistar kom og alþjóðleg handtökuskipun var gefin út á hendur honum í nóvember 2019.

Beitti þvingunum og ofbeldi

Sagt er að á árunum 2012 til 2019 hafi Pratt tekið þátt í samsæri um að fá ungar konur, þar á meðal ólögráða börn, til að stunda kynlífsathafnir í viðskiptalegum tilgangi með valdi, fjársvikum og þvingunum.

Hann átti og rak klámmyndaframleiðslufyrirtæki og á að hafa ráðið ungar konur og stúlkur til starfa í Bandaríkjunum og Kanada með fölskum auglýsingum fyrir fyrirsætustörf, sem síðar reyndust vera klámframleiðsluverkefni.

Spænska lögreglan sagði að Bandaríkjamenn hefði grunað um nokkurt skeið að hann væri á Spáni en leit þeirra að honum, sem beindist mest að borginni Barcelona, hafði ekki borið árangur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert