Ríki bregðast við frelsi Kínverja með skimunum

„Alþjóðasamfélagið hefur áhyggjur af síaukinni útbreiðslu Covid-19 í Kína og …
„Alþjóðasamfélagið hefur áhyggjur af síaukinni útbreiðslu Covid-19 í Kína og skort á gagnsæi í upplýsingagjöf.“ MARIO TAMA

Bandaríkin og Ítalía íhuga að taka upp skimanir vegna Covid-19 á landamærunum á ný, fyrir komufarþega frá Kína. 

„Alþjóðasamfélagið hefur áhyggjur af síaukinni útbreiðslu Covid-19 í Kína og skort á gagnsæi í upplýsingagjöf,“ segir fulltrúi bandarískra stjórnvalda, en BBC greinir frá. 

Japan, Malasía og Taívan hafa nú þegar tekið upp takmarkanir gagnvart þeim sem koma þangað frá Kína. Sama gildir um Indland. 

Bretland og Þýskaland hafa lýst því yfir að fylgst sé grannt með ástandinu, en það sé ekki til skoðunar að setja á neinar sérstakar takmarkanir á þessari stundu. 

Kínverjar í ferðahug

Kínverskir ríkisborgarar geta byrjað að endurnýja vegabréfin sín frá og með 8. janúar, og geta þeir þar með byrjað að ferðast út fyrir landsteinana að nýju, í fyrsta sinn frá því að heimsfaraldurinn skall á. 

Ferðaskrifstofur og ferðavefir hafa orðið varir við gífurlega aukningu á umferð um vefina sína, og bendir allt til þess að Kínverjar séu farnir að renna hýru auga í átt að ferðalögum. Þeir staðir sem oftast voru slegnir inn í leitarvél voru: Macau, Hong Kong, Japan, Taíland og Suður Kórea. 

Kanna hvort ný afbrigði hafi þróast

Lombardy héraðið á Norður-Ítalíu hefur nú þegar sett reglur um skimanir, en það var einmitt þar sem fyrstu tilfellin greindust á Ítalíu 2019. Þessar takmarkanir verða í gildi út janúar. 

Sýnin sem hafa verið tekin á Malpensa flugvellinum á Ítalíu, eru nú til greiningar hjá heilbrigðisráðuneytinu, til þess að unnt sé að koma auga á ný afbrigði, ef einhver eru. 

Orazio Schillaci. heilbrigðisráðherra Ítalíu segir að ráðuneytið sé að meta þann möguleika að gera Covid-skimun að skyldu fyrir alla þá sem ferðast til Ítalíu frá Kína. 

„Eftirlit og fyrirbyggjandi aðgerðir eru nauðsynlegar til þess að koma skjótt auga á hvers kyns ný afbrigði sem kunna að valda áhyggjum og eru ekki nú þegar útbreidd á Ítalíu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert