Microsoft í tæknikröggum

Snurða er hlaupin á þráð Microsoft og nokkrir liðir 365-þjónustunnar …
Snurða er hlaupin á þráð Microsoft og nokkrir liðir 365-þjónustunnar í lamasessi. Ljósmynd/Microsoft

Tæknirisinn Microsoft hefur átt í basli með hugbúnaðinn á bak við 365-þjónustu sína er meðal annars tekur til samskiptaforritsins Teams sem margir kynntust vel í heimsfaraldrinum.

„Við erum að skoða vandamál sem hafa áhrif víða í 365-þjónustunni,“ segir Twitter-ritari Microsoft og bætir því við í næstu færslu að tæknimenn hafi fundið vandann og vinni nú að úrbótum.

Eftir því sem hermt er á Sky News nær vandamálið til mörg þúsund notenda 365-hugbúnaðar, svo sem Teams, eins og fyrr segir, en notendur þess á heimsvísu eru 280 milljónir. Auk Teams mega sumir notendur eftirtalinna forrita reikna með einhverjum vandræðagangi þar til úr rætist:

  • Exchange Online
  • Outlook
  • SharePoint Online
  • OneDrive for Business
  • Microsoft Graph

Sky News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert