Kínverjar skamma Pavel

Petr Pavel fór yfir strikið að mati Kínverja.
Petr Pavel fór yfir strikið að mati Kínverja. Samsett mynd/AFP

Kínversk stjórnvöld hafa gagnrýnt nýkjörinn forseta Tékklands, Petr Pavel, harðlega fyrir að hringja í forseta Taívans og utanríkisráðherra landsins í gær. 

Kínverjar hafa reynt að einangra Taívan á sviði heimsmála og láta í ljós andúð sína í hvert sinn ef erlend ríki setja sig beint í samband við taívönsk stjórnvöld. Yfirvöld í Peking halda því fram að Taívan, sem nýtur sjálfstjórnar, sé hluti af Kína. Svæðið eigi þó eftir að vera formlega innlimað og það verði gert með valdi gerist þess þörf. 

Mao Ning, talskona kínverska utanríkisráðuneytisins, segir að Pavel hafi farið yfir „rauðu línuna“ sem Kínverjar hafa sett í sambandi við samskipti erlendra þjóðarhöfðingja við Taívan. 

Hún segir að þetta séu bein afskipti af kínverskum innanríkismálum og hafi auk þess sært kínversku þjóðina. 

Stjórnvöld í Kína hafa hvatt Tékka til að grípa til viðeigandi aðgerða þegar í stað til að draga úr þeim neikvæðu áhrifum sem þessi símafundur átti. Einnig til að forðast varanlegan skaða í samskiptum Kína og Tékklands. 

Pavel var kjörinn forseti landsins um helgina og mun taka formlega við embætti 9. mars. 

Forveri hans í embætti, Milos Zeman, hefur verið dyggur bandamaður Kínverja. Fyrr í þessum mánuði átti hann 45 mínútna fund með Xi Jinping í gegnum fjarfundarbúnað. Zeman segir að Xi sé vinur sinn og hefur verið tíðrætt um vinaleg samskipti ríkjanna.

Pavel ræddi við Tsai Ing-wen, forseta Taívan, sem óskaði honum til hamingju með sigurinn. 

„Ég þakkaði henni fyrir og fullvissaði hana um að Taívan og Tékkland deili sömu gildum um frelsi, lýðræði og mannréttindi,“ sagði Pavel í færslu sem hann birti á Twitter. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert