Nýr forseti var einn af æðstu mönnum NATO

Petr Pavel ásamt Evu eiginkonu sinni á blaðamannafundi í Prag …
Petr Pavel ásamt Evu eiginkonu sinni á blaðamannafundi í Prag í dag. AFP/Michal Cizek

Tékkar hafa kosið nýjan forseta en Petr Pavel hafði betur gegn fyrrverandi forsætisráðherra landsins í forsetakosningunum. 

Tilkynnt var um úrslit kosninganna í dag en Pavel verður fjórði einstaklingurinn til að gegna embættinu frá því Tékkóslóvakía skiptist í Tékkland og Slóvakíu árið 1993. 

Pavel er fyrrverandi hershöfðingi og er raunar kallaður stríðshetja í erlendum fjölmiðlum. Hann fæddist 1. nóvember árið 1961 og er því 61 árs. 

Menntun sótti hann í hernum þegar járntjaldið var enn fyrir austurhluta Evrópu en Pavel talaði í kosningabaráttunni um að koma þyrfti á meiri stöðugleika í landinu. Átti hann þar við lög og reglur og sagðist hafa orðið var við að kjósendum þyki ríkisvaldið ekki sinna skyldum sínum nægilega vel. 

Andrej Babis þurfti að játa sig sigraðan.
Andrej Babis þurfti að játa sig sigraðan. AFP/Radek Mica

Eftir að kommúnisminn hrundi og Tékkóslóvakía liðaðist í sundur þá nýttist reynsla Pavels á Balkanskaganum en hann mun hafa tekið þátt í björgunaraðgerð þar sem frönskum friðargæsluliðum var bjargað af vígvellinum þar sem Serbar og Króatar tókust á árið 1993. 

Árið 1999 var Pavel ráðinn til NATO og varð einn hæst setti maður innan NATO árið 2015 þegar hann fór fyrir herráðinu. 

Andrej Babis fyrrverandi forsætisráðherra var einnig í kjöri en hann er einnig þekktur í viðskiptalífinu í Tékklandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert