Sakar Bandaríkin um skemmdarverk á Nord Stream

AFP/John McDougall

Hvíta húsið hafnar alfarið nýrri skýrslu bandaríska rannsóknarblaðamannsins, Seymour Hersh, sem segir að Bandaríkjamenn hafi staðið á bak við skemmdarverk á Nord Stream-gasleiðslunum í fyrra.

Í skýrslu sem Hersh birti sjálfur í gær skrifar hann að kafarar bandaríska sjóhersins, sem Noregur hjálpaði, hafi komið sprengiefni fyrir í leiðslunum sem liggja undir Eystrasalti milli Rússlands og Þýskalands í júní síðastliðnum og sprengt þær þremur mánuðum síðar.

„Hreinn skáldskapur“

Talskona þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins, Adrienne Watson, lýsti Hersh-skýrslunni, sem birt var á síðu hans á vefþjónustunni Substack, sem „hreinum skáldskap“. Fulltrúi leyniþjónustunnar CIA tók undir orð Watson.

Fulltrúar norska utanríkisráðuneytisins hafna algjörlega þessari tilgátu Hersh og að eiga nokkurn hlut í málinu.

Vesturveldin kenndu Rússlandi um sprengingarnar í september og það jók á reiði gegn Moskvu í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu.

Enn sem komið er hafa rannsóknir sænskra, danskra og þýskra yfirvalda ekki fundið neinn sökudólg.

Ónefndur heimildarmaður

Hersh sagði að ákvörðunin um að sprengja leiðslurnar hefði verið tekin á laun af Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, til að stöðva möguleika Moskvu á að afla milljarða dollara með jarðgassölu til Evrópu.

Bandaríkjamenn töldu einnig að leiðslurnar gæfu Rússum pólitíska yfirburði yfir Þýskalandi og Vestur-Evrópu sem hægt væri að nota til að veikja skuldbindingar þeirra gagnvart Úkraínu eftir að Rússar réðust inn í landið, að sögn Hersh.

Tveimur vikum fyrir innrásina 24. febrúar, að sögn Hersh, sagði Biden sjálfur opinberlega að Bandaríkjamenn myndu ekki leyfa að nýja Nord Stream 2-leiðslan yrði opnuð ef Rússar réðust á Úkraínu.

Tilgáta Hersh, þar sem hann vísaði í einn ónefndan heimildarmann, er að hugmyndin hafi fyrst komið upp í desember 2021 í umræðum meðal helstu þjóðaröryggisráðgjafa Bidens um hvernig bregðast ætti við væntanlegri innrás Rússa í Úkraínu.

Sprengt með fjarstýringu

CIA hafi síðan þróað áætlunina og í skjóli NATO-æfinga í júní 2022 hafi kafarar bandaríska sjóhersins, með hjálp Noregs, komið sprengiefni fyrir á leiðslunum sem hægt var að sprengja með fjarstýringu, að sögn Hersh.

Vesturveldin hafa haldið áfram að benda á Rússa sem sökudólga og Moskvumenn hafa sakað Bandaríkjamenn og Breta um skemmdarverkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert