Banna svæfingarlyf vegna skaðlegra áhrifa á umhverfið

Gert er ráð fyrir að önnur ríki í Evrópu eigi …
Gert er ráð fyrir að önnur ríki í Evrópu eigi eftir að fylgja eftir fordæmi Skota. Ljósmynd/Gunnar Svanberg Skúlason

Skotland er fyrsta landið í heiminum til þess að banna svæfingarlyfið, desflurane, vegna skaðlegra áhrifa lyfsins á umhverfið. 

BBC greinir frá því að gögn helbrigðiskerfis Bretlands (NHS) bendi til þess að gasið, sem er notað til þess að halda fólki sofandi á meðan aðgerð stendur, hafi um 2.500 sinnum meiri áhrif á hlýnun jarðar en koldíoxíð. 

Mest var notkun desflurane á sjúkrahúsum í Skotlandi árið 2017 og samsvaraði sú notkun losun 1.700 heimila á einu ári. 

Sjúkrahús í Bretlandi hafa nú þegar takmarkað notkun lyfsins.

Ef að desflurane væri bannað á Englandi myndi það spara losun gróðurhúsalofttegunda sem samsvarar losun um 11 þúsund heimila á hverju ári. 

Gert er ráð fyrir að önnur ríki í Evrópu eigi eftir að fylgja fordæmi Skota. 

Eins og að keyra rúmlega þúsund kílómetra á dag

Í frétt BBC er rætt við íslenska svæfingalækninn Helga Jóhannsson sem starfar á Im­per­ial Col­l­e­ge Healt­hcare NHS Trust, ein­um stærsta há­skóla­spítala Lund­úna­borg­ar, og er varaforseti Royal College svæfingalækna. 

Hann sagði breska lækna vera meðviðtaðri um skaðleg áhrif gassins á umhverfið og hafa þar af leiðandi hætt notkun þess. Helgi nefndi þó að losun desflurane sé einungis dropi í hafi losunar breska heilbrigðiskerfisins. 

Svæfingarlæknirinn Kenneth Barker sagði að það hafi komið honum mikið á óvart er hann áttaði sig á áhrifum lyfsins á umhverfið. 

„Ég áttaði mig á því árið 2017 að magnið af desflurane sem ég nota á venjulegum vinnudegi sem svæfingarlæknir gefur frá sér svipaða losun og ef ég myndi keyra um 670 mílur [1.078 km] þann dag,“ sagði Barker og bætti við að hann ákvað strax að hætta notkun desflurane í kjölfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert