Býst við handtöku og hvetur til mótmæla

Klámmyndaleikkonan Stormy Daniels og Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Klámmyndaleikkonan Stormy Daniels og Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, segist eiga von á því að verða handtekinn á þriðjudaginn vegna ásakana um að hann hafi greitt klámmyndaleikkonu mútur fyrir forsetakosningarnar árið 2016. Hann hvetur stuðningsmenn sína til að mótmæla.

„Frambjóðandi Repúblikanaflokksins sem er fremstur í flokki og fyrrverandi Bandaríkjaforseti verður handtekinn á þriðjudaginn í næstu viku. Mótmælið, endurheimtum landið okkar!“ skrifaði Trump samfélagsmiðilinn Truth Social.

Rannsóknin snýst um að Trump hafi greitt Stormy Daniels, sem heitir réttu nafni Stephanie Clifford, 130 þúsund dali, eða um 18 milljónir króna, fyrir að greina ekki opinberlega frá ástarsambandi sem hún segist hafa átt við Trump mörgum árum fyrr.

Saksóknarar eru að íhuga hvort þeir skuli ákæra Trump í málinu.

Verði hann ákærður verður hann fyrsti fyrrverandi forseti landsins sem er ákærður fyrir glæp.

Trump hefur neitað því að hafa átt í ástarsambandi við Daniels.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert