Ógnvekjandi hve mörg börn hafa látist

Ungmenni fara með vatnsfötur inn í höfuðborgina Kartúm.
Ungmenni fara með vatnsfötur inn í höfuðborgina Kartúm. AFP

Mikill fjöldi barna hefur farist í átökunum í Súdan en gögn Sameinuðu þjóðanna vísa til þess að allt að sjö börn láti lífið eða særist á hverri klukkustund.

„Eins og við óttuðumst og höfum varað við, þá hefur ástandið í Súdan dregið ógnvekjandi fjölda barna til dauða,“ sagði James Elder, talsmaður barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna UNICEF, við blaðamenn.

Tölurnar nái ekki yfir allan fjöldann

Að sögn Elder er UNICEF með skýrslu undir höndum frá traustum samstarfsmanni sem sýnir fram á að a.m.k. 190 börn voru drepin og um 1.700 særðust á fyrstu ellefu dögum átakanna, sem hófust þann 15. apríl.

Segir hann gögnin byggja á tölum frá heilbrigðisstofnunum í Kartúm og Darfúr-héraðinu í Súdan. Má því áætla að raunverulegur fjöldi barna sem látið hafa lífið sé mun hærri. 

„Það merkir að fjöldinn nái aðeins yfir þau börn sem náðu að koma sér á heilbrigðisstofnanirnar á þessum svæðum,“ sagði Elder. 

„Raunveruleikinn er að öllum líkindum mun verri.“

Hundruð manna hafa verið drepin og hundruð þúsundir hafa flúið heimili sín í Súdan frá því að átök á milli stjórnarhers landsins og RSF-sveitanna hófust fyrir þremur vikum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert