Vaktstjórinn á Helge Ingstad áfrýjar

KNM Helge Ingstad eftir áreksturinn í nóvember 2018.
KNM Helge Ingstad eftir áreksturinn í nóvember 2018. AFP/Marit Hommedal

Vaktstjórinn á norsku freigátunni KNM Helge Ingstad, sem hlaut 60 daga skilorðsbundinn dóm 15. maí, hefur ákveðið að áfrýja dómnum sem kveðinn var upp við Héraðsdóm Hörðalands. Tilkynnti hann um þetta á blaðamannafundi í morgun.

„Hann hefur ákveðið að áfrýja. Ástæðan fyrir því er að hann fellst ekki á þá niðurstöðu dóms héraðsdóms að hann hafi sýnt af sér gáleysi. Aðalatriðið er að hann telur sig ekki bera refsiréttarlega ábyrgð á því sem gerðist,“ segir Christian Lundin, verjandi vaktstjórans, við fjölmiðla.

Játar að hafa metið aðstæður ranglega

Vaktstjórinn var talinn bera ábyrgð á áreksti freigátunnar við tankskipið TS Sola í Hjeltefjorden í nóvember 2018 sem hafði þær afleiðingar að freigátan lagðist á hliðina og sökk. Eftir misheppnaða tilraun til að bjarga freigátunni af strandstað var skrokkur hennar að lokum hlutaður í sundur og fluttur á brott úr firðinum.

Játar vaktstjórinn að hann hafi metið aðstæður ranglega áður en til áreksturs skipanna kom en telur að þjálfunartíma hans við stjórn KNM Helge Ingstad hafi lokið of snemma. Hann hafi því ekki hlotið nægilega þjálfun til að bera þá ábyrgð er honum var lögð á herðar auk þess sem hann bar ábyrgð á lærlingi í þjálfun er áreksturinn varð.

Taldi Héraðsdómur Hörðalands fjögur atriði skipta sköpum um sekt vaktstjórans, hann hefði ekki fylgst nægi­lega grannt með rat­sjá skips­ins, ekki heyrt kall sem barst um VHF-tal­stöð, tekið beygju á bak­borða án þess að ganga úr skugga um hvað það væri sem hann var að beina skipi sínu frá og að lok­um hefði eng­inn ann­ar aðhafst neitt það sem af­sakað gæti hátt­semi vakt­stjór­ans.

Málið lagst þungt á hinn dæmda

Einn dóm­ari fjöl­skipaðs héraðsdóms skilaði sér­at­kvæði og vildi sýkna vakt­stjór­ann á þeirri for­sendu að hann hefði ný­lokið lær­lings­tíma sín­um á skip­inu og því ekki verið reiðubú­inn að höndla þá ábyrgð sem hon­um var veitt auk þess sem hann hafi haft um­sjón með lær­lingi á þess­um tíma.

Segir verjandinn málið hafa lagst þungt á vaktstjórann, ekki síst að því hefði nú getað verið lokið, hefði hann verið sýknaður eins og vörnin taldi réttast.

Hefur áfrýjunarbeiðnin verið send héraðssaksóknaraembættinu til meðferðar og verður áfrýjunarmálið flutt fyrir Lögmannsrétti Gulaþings samþykki rétturinn að taka málið fyrir en verjandi hefur nú tveggja vikna frest til að skila skriflegum rökstuðningi þar um til dómsins.

Rannsókn málsins lauk í júlí 2020 en það var ekki fyrr en í janúar á þessu ári sem meðferð málsins fyrir héraðsdómi hófst, rúmlega fjórum árum eftir að slysið varð.

NRK

ABC Nyheter

TV2

mbl.is