Um 800 FFH sést á 27 árum

Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA) hélt blaðamannafund fyrr í dag um fljúgandi furðuhluti (FFH). Er þetta í fyrsta sinn sem stofnunin hefur boðað til slíks fundar, en þar gerðu vísindamenn grein fyrir uppruna fjölda furðusýna sem hafa orðið á tæpum þremur áratugum.

Á fundinum kom fram að stofnunin hefði kannað rúmlega 800 atvik frá undanförnum 27 árum þar sem FFH hefði komið við sögu. Nadia Drake, vísindablaðamaður, sagði að einungis 2-5% þeirra atvika væru enn óútskýrð. Þau atvik séu skilgreind sem „allt sem vísindamenn eða mælitækin skilja ekki,“ eða einfaldlega „einhver hlutur sem gerir eitthvað skrýtið“.

NASA tilkynnti í fyrra að stofnunin væri að rannsaka ýmis óvenjuleg atvik sem áttu að hafa átt sér stað. Var þá myndaður starfshópur 16 vísindamanna, en niðurstöður þeirra verða kynntar í lok júlí.

„Núverandi gögn og vitnisburðir sjónarvotta eru í sjálfu sér ekki næg sönnunargögn,“ segir David Spergel, geimvísindamaður í rannsóknarhópnum. Hann segir einn helsta lærdóminn sem hópurinn dragi af þessum rannsóknum sé að þörf sé á fleiri „hágæðagögnum“.

Óútskýranlegir málmhnettir

Sean Kirkpatrick, skrifstofustjóri hjá bandaríska varnarmálaráðuneytinu, sýndi myndband á fundinum sem tekið var upp af dróna í Mið-Austurlöndum.

Myndbandið sýnir einhvers konar hlut fljúga um loftið. Hann segir að mörg dæmi séu um slík fyrirbæri en enn sé ekki hægt að segja til um hvað hnötturinn væri.

„Þetta er dæmigert fyrir það sem við sjáum oftast. Við sjáum þessi fyrirbæri um allan heim og við sjáum þau framkvæma skýrar og áhugaverðar hreyfingar,“ segir Kirkpatrick.

Bandaríkjaþing fékk að sjá myndbandið í seinustu viku.


FFH reyndist vera Bart Simpson

Scott Kelly, fyrrverandi geimfari og orrustuflugmaður, tók einnig til máls á fundinum. Sagði hann að orrustuflugmenn og geimfarar væru oft við erfiðar aðstæður sem ýttu undir missýn.

Greindi hann frá því að í eitt skipti hefði aðstoðarflugmaður hans talið sig sjá FFH á lofti, en hann sjálfur hefði ekki séð neitt. Ákváðu þeir að snúa við og kanna málið. Reyndist furðuhluturinn þá vera helíumblaðra í líki Barts Simpson. 

mbl.is