Ásakanir á hendur Brand veki upp spurningar

Fjórar konur saka Brand um kynferðisbrot.
Fjórar konur saka Brand um kynferðisbrot. AFP

Ásakanir á hendur grínistans og leikarans Russel Brand vekja upp áleitnar spurningar um skemmtibransann og mörgum þeirra hefur ekki verið svarað að sögn utanríkisráðherra Bretlands, James Cleverly.

Brand er sakaður um að hafa beitt kynferðislegu og andlegu ofbeldi um sjö ára tímabil þegar hann var á hátindi ferils síns.

Fjórar konur hafa stigið fram að því er breskir miðlar greindu frá í gær. Ein þeirra var sextán ára þegar meint brot áttu sér stað en Brand á fertugsaldri.

Valdaójafnvægi sé vandamál

Cleverly telur að fólk í valdastöðum þurfi að hlusta betur á raddir þeirra valdalitlu. Sagði hann í samtali við BBC í dag:

„Við stöndum frammi fyrir krefjandi áskorunum þegar um er að ræða einstaklinga sem hafa mismikið vald, hvort sem það er í skemmtibransanum, pólitík eða jafnvel viðskiptaheiminum.

Við þurfum að hlusta vandlega á þá valdalitlu vegna þess að okkur hefur mistekist það oft. Þá missum við af tækifærum til þess að grípa inn í snemma. Við þurfum að bæta okkur í þessu.“

Leitaði á bráðamóttöku eftir nauðgun 

Fyrsta konan sem sakar Brand um kynferðisbrot segir Brand hafa nauðgað sér upp við vegg á heimili sínu í Los Angeles. Hún hafi leitað á bráðadeild sama dag og til séu skjöl því til staðfestingar.

Önnur kona sakar Brand um að hafa áreitt sig þegar hann var á fertugsaldri en hún sextán ára og enn í grunnskóla. Hann hafi kallað hana „barnið“ í sambandi þeirra sem hafi verið eitrað ofbeldissamband.

Þriðja konan sakar Brand um að hafa áreitt sig þegar hún var samstarfskona hans í Los Angeles og að hann hafi hótað að fara í mál við hana ef hún segði einhverjum frá.

Fjórða konan sakar Brand um að hafa beitt sig líkamlegu, kynferðislegu og andlegu ofbeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert