Biðst afsökunar á ummælum sínum um Kanye

Kanye West hefur tapað milljörðum eftir að Adidas rauf samning …
Kanye West hefur tapað milljörðum eftir að Adidas rauf samning hans við vörumerkið. AFP

Forstjóri íþróttavöruframleiðandans Adidas hefur beðist afsökunar fyrir að segja að rapparinn Kanye West „meinti ekki það sem hann sagði“ þegar hann lét ummæli falla, sem bundu enda á áralangt samstarf hans með vörumerkinu.

Bjørn Gulden, sem tók við sem forstjóri Adidas í byrjun árs, lét orðin falla í hlaðvarpinu „In Good Company“ í síðustu viku, þar sem hann var gestur.

Mjög óheppilegt

Hann sagði í hlaðvarpinu að West, sem gengur nú undir nafninu Ye, hafi farið með „nokkrar fullyrðingar sem voru ekki góðar“.

„[Þetta er] mjög óheppilegt, því ég held að hann hafi ekki meint það sem hann sagði og ég tel hann alls ekki vera slæma manneskju – það bara virtist þannig,“ sagði Gulden.

Nú hefur Gulden beðist afsökunar á ummælunum, eftir að hafa sætt mikla gagnrýni í kjölfar þeirra. Auk þess hefur fyrirtækið gefið út yfirlýsingu í tengslum við atvikið.

„Okkar ákvörðun um að slíta samstarfi með Ye vegna óviðunandi ummæla hans var algjörlega rétt. Okkar viðhorf hefur ekki breyst,“ segir í tilkynningu frá Adidas.

mbl.is
Loka