Frjálslyndir ná meirihluta í Póllandi

Donald Tusk, leiðtogi Borgaravettvangsins, ávarpar stuðningsmenn sína í gær.
Donald Tusk, leiðtogi Borgaravettvangsins, ávarpar stuðningsmenn sína í gær. AFP/Janek Skarzynski

Hin frjálslynda stjórnarandstaða í Póllandi fagnaði niðurstöðu útgönguspáa sem sýndu hana ná meirihluta í þingkosningunum sem fóru fram um helgina.

Stjórnarandstaðan hafði í gær lýst kosningunum sem síðasta tækifærinu til að bjarga lýðræðinu eftir átta ára valdatíð þjóðernissinna.

Metþátttaka var í kosningunum, meira að segja meiri þátttaka en í fyrstu kosningum í landinu eftir fall kommúnismans.

Donald Tusk, fyrrverandi forseti Evrópuþingsins og leiðtogi Borgaravettvangsins, lýsti yfir sigri í kjölfar þess að flokkur hans ásamt tveimur minni stjórnarandstöðuflokkum er líklegur til að ná hreinum meirihluta á þingi.

Sagði hann lýðræðið hafa sigrað og að niðurstaðan myndi ryðja brautina fyrir miklar breytingar eftir valdatíð þjóðernissinna.

Kjósendur fagna af hógværð

Margir kjósendur í höfuðborginni Varsjá, þar sem stuðningur við þjóðernissinna er minni, hafa leyft sér að fagna niðurstöðunni af hógværð.

„Það er von um að eitthvað breytist,“ sagði hin tvítuga, Natalia Szydlik. Sagði hún að sigur stjórnarandstöðunnar væri skref í rétta átt.

Kona greiðir atkvæði í höfuðborginni Varsjá í gær.
Kona greiðir atkvæði í höfuðborginni Varsjá í gær. AFP/Wojtek Radwanski

„Ég er mjög ánægð og tel að Pólland stígi loks skref nær Evrópu,“ sagði Alexandra Metlewicz, 33 ára gamall arkitekt. Sagði hún það mikilvægasta í sínum huga væru kvenréttindi og að stjórnarflokkurinn Lög og réttlæti hafi borið á borð kaþólska harðlínustefnu sem sé ekki spennandi í augum pólskra kvenna.

Útgönguspár sýndu að Borgaravettvangur Tusks fái 163 sæti og að minni flokkarnir tveir fái samtals 85 sæti og þannig fái stjórnarandstaðan 248 þingsæti af 460 sætum.

Stangast á við stefnu Evrópusambandsins

Í átta ár hefur stefna stjórnarflokksins Laga og réttlætis stangast á við stefnu Evrópusambandsins með umdeildum lagabreytingum, synjun á móttöku flóttafólks og harðlínustefnu þegar kemur að fóstureyðingum.

Flokkurinn hefur í valdatíð sinni aukið þjóðernissinnaða umræðu og hefur jafnvel deilt við stríðshrjáða nágranna sína í Úkraínu þrátt fyrir mikla samstöðu pólsku þjóðarinnar um að hjálpa nágrönnum sínum í ljósi innrásar Rússa.

Ekki öll kurl komin til grafar enn

Donald Tusk var forsætisráðherra Póllands á árunum 2007 til 2014 og forseti Evrópuþingsins á árunum 2014 til 2019. Hann hefur heitið því að lappa upp á samband Póllands við Brussel nái hann völdum og að lögleiða fóstureyðingar en þær eru umdeildar í hinu kaþólska ríki.

Mikið veltur enn á Andrzej Duda, forseta Póllands, en stjórnmálarýnar hafa bent á að ríkisstjórn mynduð af stjórnarandstöðu geti lent saman við forsetann sem er hliðhollur stjórnarflokknum.

Hinn gamalreyndi, Jaroslaw Kaczynski, leiðtogi stjórnarflokksins hefur einnig lýst yfir sigri í kosningunum þar sem flokkur hans fékk flest atkvæði. Segist hann enn vongóður um að geta myndað stjórn.

„Öll sund eru alls ekki lokuð,“ sagði hann á sunnudagskvöld þegar útgönguspár sýndu sigur stjórnarandstöðunnar.

Jaroslaw Kaczynski, leiðtogi stjórnarflokksins Laga og réttlætis, fagnar með stuðningsmönnum …
Jaroslaw Kaczynski, leiðtogi stjórnarflokksins Laga og réttlætis, fagnar með stuðningsmönnum sínum í gær. AFP/Wojtek Radwanski

Líklegasti samstarfsflokkurinn ólíklegur til samstarfs

Líklegasti samstarfsflokkur stjórnarflokks Kaczynskis, er Bandalagið, sem er lengst til hægri á hinu pólitíska ás með harðlínu innflytjendastefnu sem hefur kallað eftir að Pólland hætti að styðja Úkraínu. Bandalagið hefur hins vegar opinberlega lýst yfir að vilja ekki vinna með stjórnaflokknum og stjórnmálarýnar hafa einnig talið samstarfið ólíklegt í ljósi aukinnar spennu milli flokkanna tveggja.

Úkraína og bandamenn þeirra í vestri fylgjast grannt með framvindunni en Pólland hefur verið helsti stuðningsmaður innan Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins. Pólland hefur tekið við milljón flóttamönnum frá Úkraínu en fregnir hafa borist af vaxandi þreytu meðal almennra borgara í Póllandi gagnvart þeim stuðningi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert