Hafnaði 60 milljarða evra fjárveitingu

Scholz kanslari hyggst fara ofan í saumana á úrskurði stjórnlagadómstólsins.
Scholz kanslari hyggst fara ofan í saumana á úrskurði stjórnlagadómstólsins. AFP/Odd Andersen

Æðsti stjórnsýsludómstóll Þýskalands sló 60 milljarða evra loftslagsfjárveitingu ríkisstjórnarinnar út af borðinu með úrskurði sínum í dag með þeim rökstuðningi að ríkisstjórnin bryti með henni reglur um skuldasöfnun hins opinbera og kom dómstóllinn þar með fjárhagsáætlun stjórnarinnar í uppnám auk þess sem úrskurðurinn er sagður munu reyna á samstöðu hennar.

Brást dómstóllinn við ásökunum stjórnarandstöðunnar á hendur stjórninni um að hún bryti regluna um að nýjar lántökur stjórnvalda mættu ekki fara fram úr 0,35 prósentum af þjóðarframleiðslu og komst að framangreindri niðurstöðu.

Kanslari boðar yfirferð

Rökstuddi stjórnin skuldsetningu sína með því að fjárveitingar til loftslagsmála skyldu standa utan fjárhagsáætlunar en á það féllst dómstóllinn ekki.

„Úrskurður dómstólsins gerir það að verkum að stærð loftslags- og orkuskiptasjóðsins minnkar um 60 milljarða evra,“ sagði dómstóllinn í athugasemdum við úrskurðinn.

Olaf Scholz kanslari boðaði vandlega yfirferð úrskurðarins sem hann kvað hafa í för með sér breytingar á útgjöldum ríkisins en Christian Linder fjármálaráðherra brá á það ráð að frysta fjárhagsáætlun loftslagssjóðsins – sem allt í allt nemur 212 milljörðum evra – en sú ráðstöfun mun óneitanlega hafa áhrif á verkefni næsta árs og áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert