Leynisamningur tengir Abramovitsj við Pútín

Roman Abramovitsj er fyrrum eigandi Chelsea.
Roman Abramovitsj er fyrrum eigandi Chelsea. AFP/Ben Stansall

Skjöl sem láku til fjölmiðla sýna peningaslóð sem tengir rússneska ólígarkann Roman Abramovitsj við tvo menn sem kallaðir eru „veski“ Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.

Abramovitsj, fyrrverandi eigandi knattspyrnuliðsins Chelsea, hefur verið beittur viðskiptaþvingunum af Bretlandi og Evrópusambandinu en hann hefur þó áður neitað fjárhagslegum tengslum við rússneska Pútín.

Nú hefur skjölum frá Kýpur verið lekið og afhjúpa þau ný sönnunargögn sem tengja hann við leynilegan samning frá árinu 2010 að andvirði rúmlega 5,6 milljarða íslenskra króna.

Fréttastofan BBC greinir ítarlega frá en Abramovitsj hefur ekki svarað beiðnum þeirra um viðbrögð.

Fengu milljónir dollara í arð

Leynisamningurinn færði hlutabréf í mjög arðbæru rússnesku auglýsingafyrirtæki, Video International, á að því er virðist undirverði frá fyrirtækjum sem voru í eigu sjóðs tengdum Abramovitsj til tveggja manna í innsta hring Pútíns. Þeir fengu á móti milljónir dollara í arð.

Í trúnaðargögnum kemur fram að einn mannanna sem tók þátt í leynisamningnum var Sergei Roldugin, náinn vinur Pútíns, stjórnandi hjá Tónlistarhúsinu í Pétursborg.

Annar maðurinn er einnig náinn samstarfsmaður Pútíns forseta, Alexander Plekhov, fyrrum lífefnafræðingur sem varð viðskiptafræðingur, einnig frá Pétursborg. Roldugin og Plekhov hafa báðir verið sakaðir um að vera „veski“ fyrir Pútín forseta með því að halda leynilega peningum og eignum fyrir hans hönd.

BBC Newsnight, BBC Verify og Panorama voru í samstarfi við Bureau of Investigative Journalism við rannsókn og umfjöllun um gögnin sem voru afhjúpuð sem hluti af Cyprus Confidential, alþjóðlegri rannsókn undir forystu fréttamanna hjá International Consortium of Investigative Journalists (ICIJ) og Paper Trail Media.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert