Dropinn sem fyllti kaffimálið

AFP

Allt stefnir í að starfsfólk bandarísku kaffihúskeðjunnar Starbucks leggi niður störf í dag á einum annasamasta degi fyrirtækisins. Stéttarfélag starfsfólksins, Starbucks Workers United, hefur átt í hatrömmum deilum við yfirstjórn félagsins, en stéttarfélagið tók að sér málefni starfsmanna árið 2021.

Hart er deilt um kaup og kjör, vinnufyrirkomulag og önnur málefni. Búist er við að verkfallið muni hafa áhrif á rekstur um 200 kaffihúsa vestra í dag. 

Kaffiþjónninn Michelle Eisen, sem er jafnframt einn af leiðtogum stéttarfélagsins, segir að fyrirtækið hafi efni á því að gera betur við starfsfólkið. 

Rauði bollinn

Þetta er í annað sinn sem verkfall er skipulagt í kringum Red Cup-dag, sem útleggja má á íslensku sem dagur rauða bollans, en þá dreifir Starbucks jólalegum kaffimálum til viðskiptavina sem má nota aftur og aftur.

Á sumum stöðum mun verkfallið standa yfir í nokkrar klukkustundir á meðan verkfallið mun standa yfir í allan dag á öðrum, að því er segir í umfjöllun breska útvarpsins. 

Stéttarfélagið segir að markmið aðgerðanna sé að vekja athygli á því að Starbucks neiti að semja um sanngjörn kaup og kjör við þau kaffihús sem heyra undir starfsfólk stéttarfélagsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert