Hugðust kúga rúman milljarð út úr forstjóra

Joachim Kuylenstierna, forstjóri Fastators, hefur orðið uppvís að því að …
Joachim Kuylenstierna, forstjóri Fastators, hefur orðið uppvís að því að leggja á ráðin um peningaþvætti eftir að símtalsupptaka frá 2009 komst í hámæli. Sænska glæpaklíkan Foxtrot hugðist kúga út úr honum fé vegna málsins. Ljósmynd/Fastator

Lögreglan í Stokkhólmi í Svíþjóð handtók á mánudag tvo menn á þrítugsaldri sem grunaðir eru um tilraun til að kúga fé út úr Joachim Kuylenstierna, forstjóra fasteignafjárfestingafélagsins Fastators, en meðal stjórnarmanna félagsins er Carl Bildt, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar.

Tengjast mennirnir hvorum tveggja glæpaklíkunum Foxtrot og Vårby-klíkunni svokölluðu og var annar þeirra meðal ákærðu í svokölluðu Vårby-máli árið 2021 sem lauk með sakfellingu um 30 manns fyrir margvísleg afbrot, svo sem sprengjutilræði, manndrápstilraunir og mannrán. Þetta upplýsir Anna Stråth, saksóknari í málum er lúta að alþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi hjá sænska ríkissaksóknaraembættinu, í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT.

Viðkvæm upptaka kveikja kúgunarinnar

Eftir því sem dagblaðið Dagens Nyheter greinir frá eru mennirnir grunaðir um að hafa sent Kuylenstierna fjölda skilaboða gegnum samskiptaforritið WhatsApp í október og gert honum þar að greiða meinta skuld að upphæð 100 milljónir sænskra króna, jafnvirði rúmlega 1,3 milljarða íslenskra króna.

Fólst kúgunin í því að mennirnir hótuðu að greina frá bollaleggingum forstjórans um peningaþvætti árið 2009 en upptaka af símtali þar sem Kuylenstierna ræðir peningaþvættið lak nýlega út í tengslum við bók sænska rithöfundarins Rikhards Andersons um lögregluaðgerðina Operation Playa sem snerist um kókaíninnflutning til Svíþjóðar.

Á upptökunni má heyra forstjórann ræða hvernig stofna megi sjóð í Genf í Sviss og flytja þangað fé til hvítþvottar en einnig veitir hann leiðbeiningar um hvernig kaupa megi „tómt fyrirtæki“, tomt bolig á sænsku, á markaði, taka lán út á það, kaupa fasteignir og sjá til þess að fjárfestar fái fé sitt til baka við arðgreiðslur. „Þá höfum við þvættað gróðann,“ heyrðist forstjórinn segja í símtalinu.

„Hvað heldur þú?“

Í samtali við SVT staðfestir forstjórinn að tilraun hafi verið gerð til að kúga út úr honum fé en vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið. „Þetta mál er stærra en svo að það snúist um starf manns. Þetta er fjárkúgun og til þess ber að líta. Við fylgjum ráðleggingum lögreglunnar hér,“ segir hann.

Stjórnarformaður Fastators, viðskiptaráðherrann fyrrverandi Björn Rosengren, sendi á mánudaginn frá sér fréttatilkynningu þar sem hann kvað stjórnina líta fram komnar upplýsingar mjög alvarlegum augum og hygðist hún efna til rannsóknar á málinu. Hrundu bréf fyrirtækisins sem aldrei fyrr í kauphöllinni í kjölfar þess er Aftonbladet greindi fyrst frá málinu á mánudag.

„Hvað heldur þú?“ spurði Kuylenstierna fréttamann SVT þegar hann var spurður hvort hann teldi kúgunina og símtalsupptökuna tengjast.

SVT

Dagens Nyheter

Aftonbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert