Grunuð um að myrða kærasta sinn í Porsgrunn

Unga konan færð í lögreglubifreið í nótt.
Unga konan færð í lögreglubifreið í nótt. Ljósmynd/Vegfarandi

Ung kona er í haldi lögreglunnar í Porsgrunn í Noregi, rúma 100 kílómetra suður af Ósló, grunuð um að hafa myrt 22 ára gamlan kærasta sinn í íbúð þar í bænum í nótt.

Frá þessu greindi lögreglan þar í fréttatilkynningu í dag en fyrstu fréttir af atburðinum í nótt voru óljósar þar sem lögregla greindi frá því á samfélagsmiðlinum X að karlmaður hefði verið handtekinn. Var það síðar leiðrétt.

Konan, sem handtekin var, er frá Vestfold-hluta hins sameinaða fylkis Vestfold og Telemark en Porsgrunn tilheyrir Telemark sem liggur sunnar. Raunar skilja fylkin á ný 1. janúar eins og fleiri nýsameinuð norsk fylki.

Fluttu inn á föstudaginn

Lögregla telur ekki að fleiri en konan eigi hlut að máli við víg unga mannsins og kýs að tjá sig ekki um dánarorsök fyrr en að lokinni krufningu. Norska ríkisútvarpið NRK hefur eftir lögreglunni að hún telji sig hafa fundið drápsvopnið á vettvangi og sé þar ekki um skotvopn að ræða.

„Hávaði barst frá íbúðinni í nótt já, en hvað gerðist veit ég ekki, þetta kemur mjög á óvart,“ segir nágranninn Ilari Rajalehto við NRK en eigandi íbúðarinnar segir parið hafa flutt inn í íbúðina á föstudaginn.

„Svona lagað á ekki að gerast hér, svona gerist í Ósló,“ sagði Mette Pettersson, stjórnarformaður húsnæðissamvinnufélagsins sem íbúðin tilheyrir, við TV2 í dag.

Porsgrunn er tæplega 37.000 íbúa bær í Telemark í Suðaustur-Noregi.
Porsgrunn er tæplega 37.000 íbúa bær í Telemark í Suðaustur-Noregi. Ljósmynd/Wikipedia.org/Lars Iver Larsen

Óljóst er um afstöðu grunuðu til sakarefnisins en lögregla greinir frá því að annað þeirra er hlut eiga að máli hafi hringt í lögreglu í gærkvöldi vegna deilna þeirra. Ræddi lögreglumaður við hringjanda í síma og taldi málinu lokið og þótti ekki ástæða til að senda lögreglubifreið á vettvang. Í fréttatilkynningu sinni segir lögregla að ekkert hafi bent til þess í símtalinu að alvarlegir atburðir væru yfirvofandi.

Yfirheyrslur fari ekki fram í bráð

Það var svo upp úr miðnætti í nótt að norskum tíma sem lögreglu barst tilkynning um að ekki væri allt með felldu og er hún kom á vettvang hittist maðurinn fyrir með alvarlega áverka og var úrskurðaður látinn skömmu eftir að komið var með hann á sjúkrahús í nótt.

Heidi Ysen hefur verið skipuð verjandi grunuðu og verst hún allra frétta af samræðum þeirra. „Ég hef átt langt samtal við skjólstæðing minn en kýs að ræða það ekki efnislega,“ sagði hún við NRK í morgun og bætti því við að ástand ungu konunnar væri þannig að yfirheyrslur kæmu ekki til greina, hvorki í dag né á morgun.

NRK

VG

TV2

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert