Rannsaka hvort 10 mánaða barn sé látið

Kfir Babis var 9 mánaða gamall er hann var numinn …
Kfir Babis var 9 mánaða gamall er hann var numinn á brott af Hamas ásamt fjölskyldu sinni þann 7. október. Nú er hann 10 mánaða. Skjáskot

Ísraelski herinn rannsakar nú hvort 10 mánaða gísl, Kfir Babis, fjögurra ára bróðir hans og móðir þeirra séu öll látin á Gasasvæðinu.

Hryðjuverkasamtökin Hamas, sem rændu þeim ásamt föður þeirra 7. október, segja að börnin og konan hafi farist í loftárásum Ísraela.

Herinn kveðst vera að meta nákvæmni upplýsinganna, að því er segir í yfirlýsingu.

„Hamas ber alfarið ábyrgð á öryggi allra gísla á Gasasvæðinu. Aðgerðir Hamas halda áfram að stofna gíslunum í hættu, þar á meðal níu börnum," segir í yfirlýsingu hersins.

Segja 60 gísla vera látna

Að sögn Hamas fórust um 60 gíslar sem þeir tóku höndum í loftárásum Ísraela. Ekki er búið að staðfesta þær tölur.

Bibas-fjölskyldan er á meðal þeirra gísla sem hvað mest hefur verið fjallað um sökum aldurs Kfir Babis. Upptökur af því þegar fjölskyldunni var rænt hafa vakið mikla athygli og verið mörgum til minnis um mannskæða árás Hamas í Ísrael 7. október er yfir 1.200 manns, aðallega almennir borgarar, voru drepnir og um 240 gíslar fluttir yfir á Gasasvæðið.

Alfarið á ábyrgð Hamas segja ættingjar

Fjölskyldan var í haldi annarra palestínskra samtaka en Hamas, sagði talsmaður hersins, Daniel Hagari, á blaðamannafundi fyrir nokkrum dögum. 

Nánir ættingjar fjölskyldunnar hafa áður sagt að örlög fjölskyldunnar séu alfarið á ábyrgð Hamas.

„Hamas tók þau og Hamas þarf að koma með þau aftur núna,“ sagði systir móðurinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert