Alistair Darling látinn

Alistair Darling.
Alistair Darling. AFP

Alistair Darling, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, er látinn sjötugur að aldri, eftir skammvinna dvöl á sjúkrahúsi. 

Fjölskylda Darling greindi frá andlátinu í dag, en Darling glímdi við krabbamein.   

Darling, sem var þingmaður breska Verkamannaflokksins, var fjármálaráðherra frá 2007 til 2010 í ríkisstjórn Gordon Brown.

Darling varð þjóðþekktur á Íslandi í tengslum við efnahagshrunið árið 2008 þegar hann átti þátt í að taka ákvörðun um beita hryðjuverkalögum gegn Landsbankanum og Íslandi í kjölfar hruns bankans, en það tengdist rekstri Icesave í Bretlandi. 

Keir Starmer, núverandi formaður breska Verkamannaflokksins, segir að fréttir af andlátinu Darlings séu dapurleg tíðindi. 

„Alistair helgaði líf sitt opinberri þjónustu. Hans verður minnst sem fjármálaráðherra sem með yfirvegaðri sérþekkingu og heiðarleika átti þátt í að leiða Bretland í gegnum alþjóðlega efnahagshrunið,“ sagði Starmer. 

Darling hóf þingmennsku árið 1987 og hans pólitíski ferill tók stökk fram á við eftir stórsigur Verkamannaflokksins í kosningunum árið 1997, þegar Tony Blair var formaður flokksins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert