Harður í horn að taka en umdeildur

Henry Alfred Kissinger lést í gær, 100 ára gamall.
Henry Alfred Kissinger lést í gær, 100 ára gamall. AFP

Henry Alfred Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem lést á heimili sínu í Connecticut-ríki í Bandaríkjunum í gær, 100 ára gamall, er án efa einn þekktasti utanríkisráðherra nútímans. 

Kissinger fæddist í Fürth í Þýskalandi 27. maí árið 1923. Hann var af gyðingaættum en fjölskylda hans flúði til Bandaríkjanna þegar hann var 16 ára gamall.

Hann varð bandarískur ríkisborgari árið 1943 og sinnti herþjónustu í þrjú ár. Kissinger stundaði nám við Harvard-háskólann og kenndi síðar meir alþjóðasamskipti hjá Harvard.

Kissinger þótti harður í horn að taka en umdeildur en honum er lýst sem einum áhrifamesta diplómat Bandaríkjanna á síðustu öld. Hann var utanríkisráðherra í forsetatíð Richards Nixons og gegndi einnig því embætti þegar Gerald Ford tók við forsetaembættinu af Nixon. Samhliða því var hann þjóðaröryggisráðgjafi í ríkisstjórn Nixons og Fords.

Kissinger með Angelu Merkel, fyrrum kanslara Þýskalands, árið 2017.
Kissinger með Angelu Merkel, fyrrum kanslara Þýskalands, árið 2017. AFP

Lipur samningamaður en umdeildur

Hann var sagður lipur samningamaður en á ferli sínum var hann oft gagnrýndur fyrir skort á virðingu fyrir mannréttindum og var fyrirlitinn víða um heim.

Hann var til að mynda sakaður um stríðsglæpi þegar hann og Nixon stóðu fyrir sprengjuárásum gegn víetnömskum kommúnistum í Kambódíu þar sem meira en 50 þúsund óbreyttir borgarar létu lífið og hann var sömuleiðis sakaður um að hafa komið að valdaráni herforingjanna í Síle.

Í starfi sem þjóðaröryggisráðgjafi fórKissinger á tímum kalda stríðsins í leyniför til Kína árið 1971 og ári síðar héltNixon í sögulega heimsókn til Kína. Sú heimsókn kom af stað samskiptum Bandaríkjanna og Kína en Kínverjar voru álitnir helstu bandamenn Sovétríkjanna, erkióvina Bandaríkjanna.

Kissinger og Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, saman í Hvíta …
Kissinger og Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, saman í Hvíta húsinu fyrir sex árum síðan. AFP

Gagnrýndur fyrir að styðja kúgunarstjórnir

Í gegnum árin sætti Kissinger harðri gagnrýni fyrir að styðja kúgunarstjórnir út um allan heim, þar á meðal einræðisstjórn Augusto Pinochet sem framdi valdarán í Síle fyrir 50 árum síðan. Árið 1973 hlaut Kissinger friðarverðlaun Nóbels eftir friðarsamkomulagið í París um að binda enda á þátttöku Bandaríkjanna í Víetnamstríðinu.

Kissinger lét af störfum fyrir Bandaríkin árið 1977 en hann hélt áfram að vera afkastamikill fréttaskýrandi um opinber málefni. Forsetar Bandaríkjanna leituðu liðsinnis Kissingers, allt frá John F. Kennedy til Joe Biden.

Kissinger lét háan aldur ekki aftra sér frá því að fara í óvænta heimsókn til Kina í júlí í sumar þar sem hann hitti Xi Jinping Kínaforseta. Sú heimsókn fór ekki vel í helstu ráðamenn Bandaríkjanna og John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðsins, sagði það óheppilegt að Kissinger hefði aðgang að kínverskum leiðtogum en ekki bandarísk stjórnvöld.

Kissinger lætur eftir sig eiginkonu, Nancy Maginnes, en þau voru gift í næstum 50 ár. Kissinger átti tvö börn úr fyrra hjónabandi, Elizabeth og David, og fimm barnabörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert